Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   þri 03. desember 2013 16:38
Magnús Már Einarsson
Hannes: Eiður hló alltaf þegar ég tók upp tölvuna
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes í treyju Sandnes Ulf.
Hannes í treyju Sandnes Ulf.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Mig hefur lengi langað að komast út í atvinnumennsku og ég er virkilega ánægður með að það hafi orðið að veruleika í dag;" sagði Hannes Þór Halldórsson við Fótbolta.net eftir að hann samdi við norska félagið Sandnes Ulf í dag.

Landsliðsmarkvörðurinn æfði með Sandnes á dögunum og samdi síðan við félagið í dag.

,,Þetta er ungt félag í úrvalsdeildinni. Það kom upp fyrir nokkrum árum og er að festa sig í sessi þar. Þetta er 100 þúsund manna bær og þeir ætla sér stóra hluti á næstu árum. Þetta er vel rekið félag og mér líst vel á það."

Vonast til að leika aftur með KR í framtíðinni
Hannes hefur leikið með KR undanfarin þrjú ár og orðið tvívegis Íslands og bikarmeistari með liðinu.

,,Ég er búinn að eiga frábæra tíma í KR og eignast marga góða vini þar. Ég kann öllum þar miklar þakkir. Ég hef verið hjá frábæru þjálfarateymi sem ég hef lært mikið af og Gummi Hreiðars er búinn að reynast mér vel. Ég skil við KR-ingana í mikilli vinsemd. Þeir voru skilningsríkir þegar kom að þessum málum og ég skil við KR með þakklæti," sagði Hannes sem vill leika aftur með KR síðar á ferlinum.

,,Ég vona að ég hafi ekki spilað minn síðasta leik með KR. Ég vonast til að klæðast aftur KR-treyjunni fögru. Ef ég verð nógu góður til að spila með KR þegar ég kem heim þá verður það alltaf mitt val."

Síðasti séns til að fara út
Hinn 29 ára gamli Hannes er uppalinn í Leikni en hann var varamarkvörður þar áður en hann fór í Aftureldingu á láni, tvítugur að aldri. Síðan þá lék hann með Stjörnunni og Fram áður en hann fór í KR.

,,Þetta hefur þróast á mjög jákvæðan hátt. Það var orðið markmið hjá mér að komast út og ég hefði verið ósáttur að ná ekki því markmiði. Ég hefði ekki getað verið mikið lengur hér heima, þá hefði sénsinn farið. Ég held að þetta sé góður tímapunktur til að fara út."

,,Ég held að þetta eigi eftir að gera mér gríðarlega gott sem markmaður. Ég hef þurft að dreifa orkunni og fókusnum á tvo staði, í fótboltann og krefjandi vinnu. Ég hef verið mjög ósérhlífinn þegar kemur að æfingum og ég hef reynt að æfa aukalega og halda mínum prinsippum. Núna hef ég allan tíma í heiminum til að æfa mig sem markmaður og ég held að þetta eigi eftir að gera mér mjög gott."


Hannes hefur starfað sem leikstjóri hjá Saga Film og getið sér gott orð fyrir störf sín þar.

,,Ég er í góðri vinnu sem ég hef mjög gaman að en þetta er slítandi og það hefur verið álag að blanda þessu saman. Ég er smá hvíldinni feginn, að geta andað rólegar og náð aðeins að eyða meiri tíma með fjölskyldunni."

,,Ég verð að hrósa vinnuveitendum mínum í Saga Film því að þeir tóku þessu mjög vel og hvöttu mig til að fara út. Þeir sögðu mér að líta þetta á sem ótímabundið leyfi og ég mun taka aftur upp ströf þegar þessu lýkur. Þeir tóku þessu vel og ég kann þeim þakkir fyrir það."


Hættir að vinna í landsliðsferðum
Hannes hefur haft mjög mikið að gera í starfi sínu hjá Saga Film og í landsliðsferðum sem og í æfinga og keppnisferðum með KR hefur hann oft setið upp á hótelherbergi í klippivinnu.

,,Það er nánast aldrei frí. Þegar ég held að ég sé að fara í rólega ferð þá kemur eitthvað upp og ég þarf að sinna verkefnum. Þessi vinna er svolítið miskunnarlaus, þú þarft að vinna og ekkert múður. Þetta er álagsvinna og þetta er stressandi þannig að það er gott að kúpla sig aðeins út og koma síðan aftur ferskur til baka."

Eiður Smári Guðjohnsen er herbergisfélagi Hannesar í landsliðinu og Hannes hefur ekki haft mikinn tíma til að slaka á eins og hann.

,,Hann hlær mikið að þessu. Honum finnst alltaf jafn fyndið þegar ég tek upp tölvuna um leið og við hittumst og byrja að klippa. Hann er alltaf að reyna að fá mig til að hangsa með sér og horfa á myndir eða eitthvað. Ég get gert það núna þannig að hann ætti að fagna þessu," sagði Hannes léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner