
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, undirbýr nú lið sitt fyrir umspilsleiki Lengjudeildarinnar. Þróttarar töpuðu fyrir Þór í úrslitaleik um um fyrsta sæti Lengjudeildarinnar um helgina, en Sigurvin bendir á að staða liðsins sé óbreytt frá því fyrir þann leik.
„Þetta var eins og sama tilfinning og alltaf þegar maður tapar. Við vissum komandi inn í þennan leik að sigur myndi koma okkur upp en jafntefli eða tap þýddi að við værum í sömu stöðu. Við erum að fara að spila við HK um nákvæmlega sama hlut. Í raun breyttist ekkert, við erum enn í sömu stöðu,“ segir Sigurvin í samtali við Fótbolti.net.
Hvernig horfiru til baka á Þórsleikinn?
„Hann fór eins og maður reiknaði með. Þetta var jafn leikur og því miður urðum við undir. Við skoruðum færri mörk en þeir og þeir fögnuðu. Okkur tókst að spila okkar leik, héldum vel í boltann og náðum að loka á flest sem Þór var að reyna að gera. Því miður skoruðu þeir tvisvar en við bara einu sinni.“
„Ég var mjög stoltur af strákunum. Þeir höndluðu þetta stóra tilefni með stæl. Spiluðu frjálsir og nýttu orkuna úr stúkunni á jákvæðan hátt, mér fannst mínir menn alls ekki stressaðir. Ég er búinn að sjá tölurnar úr leiknum, við vorum að spila okkar leik og rúmlega það. Við erum 63 prósent með boltann og sendingarnar voru 85 prósent á samherja. Miklu hærra en allt sem Þórsarar voru að gera. Þeir spiluðu þetta aðeins öðruvísi og það dugði því miður fyrir þá.“
Þróttarar fá lítinn tíma til að gera leikinn á laugardaginn upp, liðið mætir HK á miðvikudaginn í fyrri umspilsleik liðanna.
„Þetta er kúnst íþróttamannsins: Hvernig maður höndlar bæði sigra og töp. Maður þarf að hafa gott hugarfar í að einbeita sér af fullri orku í það verkefni sem maður fer í. Svo verður maður að hafa haus í það að díla við tapið ef manni tekst ekki og stilla sig strax í næsta leik.“
„Við erum búnir að spila við HK tvisvar sinnum á þessu tímabili. Mér fannst við spila betur en þeir í fyrri leiknum, þó að við höfum bara fengið jafntefli. Svo áttum við ágætis leik í seinna skiptið, en fengum gusu í lokin þegar við vorum að reyna ná jöfnunarmarki. Þegar við höfum spilað við liðin í efri hlutanum hafa þetta allt verið spennandi leikir, ég býst við meira af því sama.“
Liðin mættust fyrir rúmri viku síðan. Þar fóru HK-ingar með 5-2 sigur af hólmi. Kemur það liðinu til góðs að hafa nýlega mætt HK?
„Já frekar en hitt, og líka að hafa tapað með þremur mörkum. Það er gott fóður að fá að hefna fyrir sárt tap fyrir svo stuttu síðan. Það er í raun kærkomið að fá að mæta þeim strax aftur.“
Þróttur hefur nú tapað tveimur leikjum í röð en liðið var ósigrað í ellefu leikjum þar áður.
„Við erum meðvitaðir um það að stundum falla hlutir ekki með okkur. Það var slatti af sigurleikjum í þessari sigurhrinu sem voru jafnir leikir og við náðum að knýja fram úrslitin. Í hvorugum þessara tveggja tapleikja brugðumst við okkar prinsippum. Mér fannst allir í spila vel í síðasta leik. Það vill þannig til að úrslitin voru óhagstæð í þessum tveimur leikjum. Við erum meðvitaðir um að ef við höldum þessari línu áfram þá dettur þetta með okkur og við þrýstum þessu í gegn sjálfir.“
Þróttur mætir HK í Kórnum í fyrri umspilsleik liðanna á miðvikudaginn. Síðari viðureign liðanna fer fram á sunnudaginn á Avis-vellinum í Laugardal. Sigurvegari einvígisins mætir annað hvort Keflavík eða Njarðvík í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Athugasemdir