fös 20. mars 2020 11:00
Fótbolti.net
Hvar eru þeir nú? - Erlendir leikmenn sem léku á Íslandi
Fyrsti hluti
Uni Arge tók viðtal við Heimi Guðjónsson í færeyska sjónvarpinu árið 2018.
Uni Arge tók viðtal við Heimi Guðjónsson í færeyska sjónvarpinu árið 2018.
Mynd: kvf.fo
Richard Keogh var rekinn frá Derby í fyrra.
Richard Keogh var rekinn frá Derby í fyrra.
Mynd: Getty Images
Fróði Benjaminsen er 42 ára og ekki ennþá búinn að leggja skóna á hilluna!
Fróði Benjaminsen er 42 ára og ekki ennþá búinn að leggja skóna á hilluna!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Allan Borgvardt var frábær hjá FH.
Allan Borgvardt var frábær hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Prince Rajcomar fagnar marki með Breiðabliki.
Prince Rajcomar fagnar marki með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Alexander Söderlund í leik með Rosenborg gegn Val árið 2018.  Ferill hans hefur tekið stakkaskiptum eftir dvölina á Íslandi.
Alexander Söderlund í leik með Rosenborg gegn Val árið 2018. Ferill hans hefur tekið stakkaskiptum eftir dvölina á Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jordao Diogo spilaði í mörg ár í grísku úrvalsdeildinni eftir dvölina hjá KR.
Jordao Diogo spilaði í mörg ár í grísku úrvalsdeildinni eftir dvölina hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Kemar Roofe sló í gegn hjá Leeds og í kjölfarið keypti Anderlecht hann í sínar raðir.
Kemar Roofe sló í gegn hjá Leeds og í kjölfarið keypti Anderlecht hann í sínar raðir.
Mynd: Getty Images
Hinn 28 ára gamli James Hurst á 22 félagaskipti að baki á ferlinum!
Hinn 28 ára gamli James Hurst á 22 félagaskipti að baki á ferlinum!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Scholz er fastamaður í toppliðinu í Danmörku.
Alexander Scholz er fastamaður í toppliðinu í Danmörku.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
George Baldock er fastamaður í byrjunarliði Sheffield United.
George Baldock er fastamaður í byrjunarliði Sheffield United.
Mynd: Getty Images
Joshua Wicks.
Joshua Wicks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ryan Allsop í baráttunni gegn Romelu Lukaku í leik í ensku úrvalsdeildinni.
Ryan Allsop í baráttunni gegn Romelu Lukaku í leik í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Margir erlendir leikmenn hafa leikið á Íslandi í gegnum tíðina og Fótbolti.net hefur tekið saman yfir lista hvar sumir af þessum leikmönnum eru niður komnir í dag.

Hér að neðan má sjá fyrsta hlutann af þessum lista en sá næsti birtist í næstu viku. Ef að einhverjar upplýsingar eru vitlausar eða ef lesendur hafa upplýsingar um leikmenn sem vantar á listann þá má endilega senda skilaboð á [email protected].

Í dag birtum við lista yfir leikmenn sem byrjuðu að spila á Íslandi til ársins 2013.


Uni Arge (Leiftur 1998-1999 og ÍA 2000)
Á sínum tíma var Uni Arge í landsliði Færeyinga en hann spilaði þrjú tímabil á Íslandi. Óhætt er að segja að Uni Arge hafi látið til sín taka á hinum ýmsu sviðum í Færeyjum síðan þá. Hann hefur starfað í fjölmiðlum, skrifað bækur, gefið út vinsæla tónlist og undanfarin ár hefur hann setið á þingi í Færeyjum.

Richard Keogh (Víkingur R. 2004)
Þegar Keogh var í láni hjá Víkingi frá Stoke árið 2004 benti ekki margt til þess að hann myndi spila á stórmóti með landsliði einn daginn. Eftir Íslandsdvölina flakkaði Keogh í neðri deildunum á Englandi og spilaði meðal annars með Aroni Einari Gunnarssyni hjá Coventry áður en hann fór til Derby árið 2012. Keogh spilaði með Írum á EM 2016 og var fyrirliði Derby áður en hann var rekinn frá félaginu í fyrra. Keogh var rekinn eftir að hann meiddist illa á hné í bílslysi en undir stýri var liðsfélagi hans sem var drukkinn.

Fróði Benjaminsen (Fram 2004)
Fróði er orðinn 42 ára gamall en hann er ekki ennþá búinn að leggja skóna formlega á hilluna. Fróði spilaði með Skála í færeysku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og var í lykilhlutverki. Hann ætlar að taka ákvörðun á næstu vikum um það hvort hann spili áfram í sumar. Fróði spilaði 94 landsleiki fyrir hönd Færeyinga en sá síðasti var árið 1997. Samhliða fótboltanum hefur hann starfað sem fangavörður og smiður í Færeyjum.

Allan Borgvardt (FH 2003-2005)
Allan Borgvardt sló í gegn í íslenska boltanum þegar hann lék með FH frá 2003-2005. Borgvardt raðaði inn mörkunum og var valinn besti leikmaður efstu deildar árin 2003 og 2005. Í ágúst 2005 samdi Borgvardt við Viking í Noregi en hann stoppaði stutt við og gekk til liðs við Bryne síðar það ár. Árið 2010 fór Borgvardt í Sandnes Ulf í Noregi en um haustið flutti hann til Svíþjóðar og gekk í raðir Sylvia. Hinn 39 ára gamli Borgvardt raðaði inn mörkum í C og D-deildinni í Svíþjóð með liði Sylvia en hann skoraði 60 mörk í 95 leikjum áður en skórnir áttu að fara upp á hillu árið 2016. Borgvardt ákvað að spila áfram í sjöundu efstu deild með Svärtinge SK þar sem hann skoraði 26 mörk í 20 leikjum! Samhliða fótboltanum í Svíþjóð hefur Borgvardt starfað sem nuddari og yngri flokka þjálfari í Svíþjóð.

Bo Henriksen (Fram og Valur 2005 – ÍBV 2006)
Danski framherjinn Bo Henriksen afrekaði það að leika með þremur íslenskum félögum á aðeins tveimur tímabilum. Þessi síðhærði framherji fór síðan til Brönshoj í heimalandi sínu þar sem að hann tók síðar við sem þjálfari. Frá árinu 2014 hefur Bo Henriksen þjálfað Horsens í Danmörku en Kjartan Henry Finnbogason lék undir hans stjórn.

Carl Dickinson (Víkingur R. 2006)
Grjótharður varnarmaður sem stoppaði stutt hjá Víkingi R. á láni frá Stoke. Lék með bæði Watford og Portsmouth í Championship deildinni áður en hann fór til Port Vale í C-deildinni og síðar Notts County í ensku D-deildinni. Spilar í dag með Yeovil í efstu utandeildinni eftir fall á síðasta tímabili.

Barry Smith (2006-2008)
Eftir langan feril með Celtic og Dundee þá varð Barry Íslandsmeistari með Val áður en skórnir fóru á hilluna. Barry hefur síðan þá verið knattspyrnustjóri hjá Dundee, Alloa Athletic, Aldershot Town, East Fife, Raith Rovers og Brechin City. Í dag er hann aðstoðarstjóri Dumbarton í Skotlandi.

Andrew Mwesigwa (ÍBV 2006-2009)
„Siggi“ eins og hann var kallaður í Eyjum, gekk í raðir Chongqing Lifan í Kína árið 2010. Eftir eitt tímabil þar fór Úgandamaðurinn síðan til FC Ordabasy í Kasakstan þar sem hann var í þrjú ár. Hinn 35 ára gamli Siggi spilaði síðast með Sai Gon í úrvalsdeildinni í Víetnam árið 2016.

Prince Rajcmoar (Breiðablik 2006-2008 og KR 2009)
Prinsinn var nokkuð duglegur að skora á Íslandi en hann fór síðan til Zalaegerszeg í Ungverjalandi. Eftir dvöl í næstefstu deild í Hollandi og stutt stopp í Tælandi þá fór hann til Poli Timișoara í rúmensku úrvalsdeildinni árið 2016. Í kjölfarið fór Prince til Belgíu í neðri deildirnar og síðast fréttist af honum hjá liði Patro Eisden í C-deildinni þar í landi. Árið 2014 var Prince valinn í landslið Curacao en hann skoraði þrjú mörk í níu leikjum með liðinu.

Jakob Spangsberg (Leiknir R. 2004-08, Valur 2006 og Víkingur R. 2009-10)
Danski framherjinn skoraði 55 mörk í 122 leikjum á Íslandi áður en skórnir fóru á hilluna. Starfar í dag sem húsgagnahönnuður í heimlandi sínu Danmörku.

Andre Hansen (KR 2009)
Þrítugur markvörður sem spilaði nokkra leiki á láni hjá KR frá Lilleström. Spilaði með Lilleström og Odd Grenland áður en hann samdi við Rosenborg árið 2015. Síðan þá hefur Hansen orðið fjórum sinnum norskur meistari með Rosenborg og spilað nokkra landsleiki með norska landsliðinu.

Alexander Söderlund (FH 2009)
Norskur framherji sem átti ekki alltaf fast sæti í liði FH árið 2009 en síðan þá hefur ferill hans tekið stakkaskiptum. Söderlund raðaði inn mörkum í norsku úrvalsdeildinni með Haugesund áður en Rosenborg keypti hann. Söderlund varð markakóngur og meistari með Rosenborg árið 2015 og í kjölfarið keypti franska félagið Saint-Etienne hann. Skrefið til Frakklands var of stórt fyrir Söderlund en hann skoraði þrjú mörk í 43 leikjum og var mikið gagnrýndur fyrir að vera of hægur og ekki með nægilega mikla tækni fyrir frönsku úrvalsdeildina. Söderlund fór aftur til Rosenborg árið 2018 en fyrr á þessu ári gekk hann í raðir Hacken í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur Söderlund skorað tvö mörk í 32 landsleikjum með Noregi.

Sam Mantom (Haukar 2010)
Var á láni hjá Haukum frá WBA árið 2010. Hefur frá árinu 2010 spilað í ensku C-deildinni þar sem hann á yfir 200 leiki að baki með Tranmere, Oldham, Walsall, Scunthorpe og Southend en hann er í dag á mála hjá síðastnefnda liðinu.

Jordao Diogo (KR 2008-2011)
„Hann kom frá Portúgal og hann hatar Val," sungu stuðningsmenn KR um Diogo á sínum tíma. Diogo fór frá Íslandi til Panserraikos í B-deildinni í Grikklandi. Eftir góða frammistöðu þar lék hann í grísku úrvalsdeildinni frá 2012 til 2019 með Panthrakikos, Kerkyra og Levadiakos. Í dag spilar Diogo með Needham Market í sjöundu efstu deild á Englandi. Hinn 34 ára gamli Diogo ólst upp í Portúgal en hann á ættir að rekja til São Tomé and Príncipe og hann hefur leikið nokkra landsleiki með því landi undanfarin ár. São Tomé and Príncipe er í 181. sæti á heimslista FIFA.

Kelvin Mellor (ÍBV 2011)
Varnarmaður sem var í láni hjá ÍBV frá Crewe árið 2011. Ári síðar var hann nálægt því að ganga í raðir Derby en ekkert varð af því. Nigel Clough, þáverandi stjóri Derby, var brjálaður yfir því að Mellor hafi ákveðið að fara til Ibiza í frí í kringum samningaviðræðurnar. Mellor fór til Plymouth Argyle árið 2014 en hann spilaði síðan með Blackpool frá 2016 til 2018. Síðan þá hefur hann leikið með Bradford í ensku D-deildinni.

Kemar Roofe (Víkingur R. 2011)
Spilaði einungis tvo leiki í Pepsi-deildinni þegar hann var í láni hjá Víkingi R. frá WBA árið 2011, þá 18 ára gamall. Roofe fór trá WBA til Oxford árið 2015 og sló í gegn í ensku D-deildinni. Þessi fljóti sóknarmaður var valinn bestur í D-deildinni á síðasta tímabili og í kjölfarið keypti Leeds hann í sumar á rúmlega 3 milljónir punda. Roofe stóð sig vel með Leeds áður en Vincent Kompany keypti hann til Anderlecht síðastliðið sumar. Þar hefur hann skorað sex mörk í þrettán leikjum á tímabilinu.

Mark Doninger (ÍA 2011/2012 og Stjarnan 2012)
Enskur miðjumaður sem kom til ÍA eftir að hafa áður verið á mála hjá Newcastle United. Hefur flakkað á milli liða í ensku utandeildinni undanfarin ár með stuttu stoppi hjá Valdres í Noregi. Í janúar samdi Doninger við Whickham í níundu efstu deild á Englandi en í febrúar var hann settur á sölulista fyrir að gagnrýna stjóra liðsins á Twitter.

Tomi Ameobi (BÍ/Bolungarvík 2011 og Grindavík 2012)
Ameobi fjölskyldan á marga öfluga fótboltamenn en bræðurnir Shola og Sammy spiluðu báðir með Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma. Tomi spilaði á Íslandi árin 2011 og 2012 áður en hann fór til VPS í finnsku úrvalsdeildinni. Þaðan lá leiðin til Edmonton í Kanada þar sem Tomi hefur spilað undanfarin ár. Edmonton lék lengi í næstefstu deild í Bandaríkjunum en undanfarin tvö ár hefur liðið tekið þátt í úrvalsdeildinni í Kanada.

Babacar Sarr (Selfoss 2011/2012)
Eftir dvölina á Selfossi spilaði Sarr með Start og Sogndal áður en norska stórliðið Molde fékk hann í sínar raðir árið 2016. Þar spilaði Sarr undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Sarr hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum í Noregi af neikvæðum ástæðum en hann hefur verið ákærður fyrir nauðganir þar í landi og er eftirlýstur af Interpol. Síðastliðinn vetur fór Sarr til Yenisey Krasnoyarsk í Rússlandi en hann spilar í dag með Damac í Sádi-Arabíu. Noregur er ekki með framsalssamning við Sádi-Arabíu og því hefur ekki tekist að handtaka Sarr ennþá.

Jónas Þór Næs (Valur 2011-2013 og ÍBV 2017)
Jónas spilaði bæði með Val og ÍBV í Pepsi-deildinni. Hann fór frá Vestmannaeyjum heim til Færeyja árið 2018 þar sem hann hefur leikið með B36 síðan þá. Jónas er 33 ára gamall en hann á 57 landsleiki að baki með Færeyjum.

James Hurst (ÍBV 2010 og Valur 2013/2014)
Hurst var öflugur þegar ÍBV barðist um Íslandsmeistaratitilinn árið 2010 en hann var þá í láni frá WBA. Nokkrum mánuðum síðar var hann í byrjunarliði WBA í leik gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni. Leikirnir í treyju WBA urðu þó ekki fleiri en Hurst spilaði nokkra leiki á láni hjá Blackpool og Birmingham í Championship deildinni sem og hjá Chesterfield og Shrewsbury í C-deildinni. Síðan þá hefur hinn 28 ára gamli Hurst átt erfitt með að festa sig í sessi en hann hefur skipt ítrekað um félög. Samtals eru félagaskipti hans á ferlinum orðin 22. Þá komst Hurst í fréttir í enskum fjölmiðlum árið 2018 þegar hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur. „Ég er milljónamæringur, ég borga sektina - mér er drullusama," á hann að hafa sagt við lögregluna en lögreglukonan Anita Hickish segir að hann hafi verið gífurlega hrokafullur og sagt við hana að hún ætti að „gúggla sig". Áfengismagnið í blóði Hurst mældist tæplega helmingi hærra en það sem leyfilegt er í Bretlandi. Í dag spilar Hurst með Hednesford Town í fimmtu efstu deild á Englandi.

Alexander Scholz (Stjarnan 2012)
Eftir að hafa verið í yngri landsliðum Dana ákvað Scholz að taka sér frí frá fótbolta í eitt ár og ferðast um heiminn. Scholz var staddur Himalaya fjöllunum þegar hann náði samningum við Stjörnuna fyrir tilstuðlan Henrik Bödker. Scholz flaug beint til Ísands þar sem hann sló í gegn í Pepsi-deildinni. Belgíska félagið Lokeren krækti í hann í kjölfarið. Standard Liege keypti Scholz árið 2015 en hann var í lykilhlutverki þar og félög í stærstu deildum Evrópu sýndu honum áhuga. Eftir stutt stopp hjá Club Brugge árið 2018 fór Scholz til Midtjylland í Danmörku þar sem hann er fastamaður í liðinu í dag. Midtjyllan er með tólf stiga forskot á FCK á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar.

Mads Laudrup (Stjarnan 2012)
Sonur goðsagnarinnar Michael Laudrup spilaði nokkra leiki með Stjörnunni árið 2012. Mads lagði skóna á hilluna í lok árs 2015, þá 26 ára gamall, en síðast spilaði hann með Helsingör í B-deildinni.

George Baldock (ÍBV 2012)
Var í láni hjá ÍBV frá Milton Keynes Dons árið 2012. Festi sig síðar í sessi hjá Milton Keyens Dons áður en hann gekk í raðir Sheffield United árið 2017. Hann hefur verið fastamaður í spútnikliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í vetur en hann hjálpaði liðinu upp úr Championship deildinni í fyrra. Baldock hefur tjáð sig um dvölina í Eyjum í viðtölum í Englandi í vetur en hann lýsti því meðal annars hvernig hann smakkaði harðfisk og hákarl á Íslandi. Síminn Sport reyndi að senda Baldock harðfisk í vetur en Sheffield United afþakkaði sendinguna þar sem Baldock er vegan í dag.

Danny Thomas (FH 2012)
Spilaði nokkra leiki í ensku úrvalsdeildinni með Leicester í byrjun ferilsins. Kom til FH 2012 en lagði skóna á hilluna eftir tímabilið, þá 31 árs gamall. Hóf í kjölfarið að starfa sem fasteignasali.

Robert Sandnes (Selfoss 201, Stjarnan 2013 og KR 2017)
Sandnes neyddist til að leggja skóna á hilluna síðastliðið haust, þá 27 ára gamall, eftir erfiða baráttu við magavandamál. Sandnes spilaði með mörgum Íslendingum hjá Álasund í Noregi árið 2018. Það ár byrjaði Sandnes að finna fyrir magavandamálum en hann varð að kasta upp alltaf þegar hann byrjaði að hlaupa. Þrátt fyrir aðgerðir var vandamálið ennþá til staðar og því lagði Sandnes skóna á hilluna.

Nichlas Rohde (Breiðablik 2012 og 2013)
Danskur framherji sem hefur spilað með AB í B og C-deildinni undanfarin ár. Var í láni hjá Blikum frá FC Nordsjælland.

Josh Wicks (Þór 2012 og 2013)
Bandaríski markvörðurinn Wicks fór frá Þór til Svíþjóðar þar sem hann gekk í raðir AFC Eskilstuna. Árið 2014 hjálpaði hann liðinu upp í B-deildina og árið 2016 fór það upp í sænsku úrvalsdeildina. Wicks fór í kjölfarið til Sirius þar sem hann spilaði tvö tímabil í sænsku úrvalsdeildinni áður en hann var dæmdur í tveggja ára keppnisbann fyrir kókaínneyslu. Hinn 36 ára gamli Wicks er nú laus úr keppnisbanni og ætlar að spila aftur með gömlu félögum í Eskilstuna í sænsku B-deildinni í ár. Wicks er mikill tattú áhugamaður en hann er með yfir 40 slík á sér.

Ryan Allsop (Höttur 2012)
Flestir leikmennirnir á listanum hér eru úr Pepsi-deildinni en það er ekki hægt að sleppa Allsop. Árið 2012 var Allsop frábær í marki Hattar fyrri hluta sumars í 1. deildinni áður en hann samdi við Leyton Orient í ensku C-deildinni. Þaðan lá leiðin til Bournemouth en Allsop hjálpaði liðinu úr C-deildinni árið 2013 og spilaði í Championship deildinni árið eftir. Þegar Bournemouth fór upp í ensku úrvalsdeildina varð Allsop þriðji markvörður liðsins en hann spilaði tvo leiki þar, gegn Everton og Leicester. Í dag er Allsop aðalmarkvörður Wycombe í ensku C-deildinni en hann hefur einnig leikið með Blackpool og Lincoln undanfarin ár.
Athugasemdir
banner
banner