mán 21. nóvember 2022 23:20
Ívan Guðjón Baldursson
Messi er klár í slaginn fyrir síðasta heimsmeistaramótið sitt
Mynd: EPA

Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu hefja leik á HM í fyrramálið þegar þeir spila við Sádí-Arabíu.


Argentína er í C-riðli ásamt Sádum, Pólverjum og Mexíkóum sem eigast við seinna á morgun.

Þetta verður síðasta heimsmeistaramót Messi og hans síðasta tækifæri til að fullkomna bikarsafnið sitt.

Messi hefur unnið allt mögulegt á ferlinum - nema heimsmeistaramót með Argentínu.

„Þetta verður líklega síðasta heimsmeistaramótið mitt, mitt síðasta tækifæri til að upplifa draum minn um að vinna HM," sagði Messi sem er lykilmaður í ógnarsterku liði PSG þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára gamall.

„Líkamlega líður mér mjög vel og ég er á virkilega góðum stað andlega. Það eru engin vandamál og ég hlakka til mótsins."

Messi æfði fjarri liðsfélögunum á dögunum en það var vegna þess að hann var að ná sér eftir smávægilegt hnjask. Hann er búinn að jafna sig og getur ekki beðið eftir að sparka í bolta. Hann segist vera sérstaklega spenntur fyrir þessu móti vegna fjölda fólks utan Argentínu sem heldur með landsliðinu.

„Það er mjög fallegt hversu margir utan Argentínu halda með landsliðinu okkar og það er að stórum hluta útaf mér. Ég er þakklátur fyrir ástina sem mér hefur verið sýnd um allan heim á ferlinum. 

„Ég veit ekki hvort okkur takist að vinna keppnian en við erum nýlega búnir að vinna Copa America og það hjálpar okkur andlega."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner