
'Þeir eru það svo sem alltaf, orkumiklir, mér sýnist þeir núna svolítið vera búnir að fá liðið sitt til baka'
„Ótrúlega spenntur, langt síðan ég hef verið svona spenntur fyrir deildarleik," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net.
Framundan, klukkan 17:00 í dag, er leikur gegn KR í Bestu deildinni. Um fyrsta leik KR á Meistaravöllum þetta tímabilið er að ræða.
Framundan, klukkan 17:00 í dag, er leikur gegn KR í Bestu deildinni. Um fyrsta leik KR á Meistaravöllum þetta tímabilið er að ræða.
„Þetta verða tvö lið sem reyna spila fótbolta, reyna halda í bolta og verða beinskeytt þegar það á við. Ég geri ráð fyrir að bæði lið spili hátt uppi á vellinum og þá, nánast undantekningarlaust, verða fótboltaleikir mjög skemmtilegir."
„Mér líst mjög vel á hópinn minn, það eru þrír dagar á milli leikja sem er nóg og við erum með stóran og breiðan hóp, þannig við erum mjög ferskir. Ég held að við séum ekki komnir það langt inn í tímabilið að við þurfum að hafa áhyggjur af álagi, gæðin og breiddin í hópnum sér líka svolítið um það."
Gaman að taka þátt í vígsluleiknum
Hvernig heldur Dóri að það verði að spila á nýjum Meistaravöllum á morgun? Spáir þjálfarinn eitthvað í grasinu fyrir leik?
„Það verður ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessum fyrsta leik á nýjum velli, mikil stemning í kringum leikinn sem gerir þetta skemmtilegra. Grasið sjálft er auðvitað bara eins og nýlagt gervigras, stráin eru ennþá stíf og boltinn rúllar furðulega, það eru fleiri tonn af sandi og gúmmíi sem hefur ekki náð að setjast, það tekur lengri tíma. Það er bara hluti af þessu, Kópavogsvöllur var svona þegar við skiptum um grasið '23 og við höfum spilað á fleiri svona völlum, það tekur tíma fyrir nýja gervigrasvelli að jafna sig. Við erum ekki að fara gera neitt öðruvísi á morgun en við erum vanir."
Hvernig býstu við KR-ingum á morgun, þeir hafa verið í smá hvíld, heldur þú að þeir verði orkumiklir?
„Já, ég held það, þeir hafa fengið góðan tíma til að safna orku. Þeir eru það svo sem alltaf, orkumiklir, mér sýnist þeir núna svolítið vera búnir að fá liðið sitt til baka. Þeir verða skemmtilegur, krefjandi og erfiður andstæðingur."
Viktor Örn Margeirsson verður í banni næsta miðvikudag þegar Lech Poznan mætir á Kópavogsvöll þar sem hann fékk rautt spjald í fyrri leiknum. Spilar það eitthvað inn í liðsvalið á morgun?
„Nei, eins og ég sagði áðan þá erum við ekki komnir þangað. Við stillum upp okkar sterkasta liði, það er enginn þreyttur, þeir sem eru leikfærir eru klárir í að spila þennan leik."
Dreymir engan um að liggja til baka og snerta ekki boltann
Fyrri leikur liðanna, sem spilaður var á Kópavogsvelli, var einn allra skemmtilegasti leikur tímabilsins til þessa, 3-3 veisla. Er það sama nálgun og fyrir síðasta leik, það þarf að hlaupa með þeim, eða hvað?
„Það er bara þannig, þú getur sagt það að lið séu búin að vera rosalega klók að spila með fimm manna varnir og leyfa KR að vera með boltann, hlaupa aftur fyrir þá og allt þetta. En ef þú þrammar um höfuðborgarsvæðið og finnur unga krakka á sparkvöllum með stóra drauma um að ná langt í fótbolta, það er enginn þar með draum um að spila hálfleik eftir hálfleik þar sem liðið þeirra nær ekki einni sendingu á mínútu og leikmenn í liðinu sem jafnvel snerta ekki boltann heilu og hálfu leikina. Það er draumur allra að spila svona leik eins og þessi tvö lið spila."
Býr við hliðina á KR
Dóri er uppalinn KR-ingur, hann hefur oft komið í Vesturbæinn sem þjálfari andstæðinganna, en er það skrítið?
„Nei, alls ekki. Það eru tíu ár síðan ég var í KR síðast, tíminn líður hratt, hef margoft spilað á móti KR, bæði heima og úti. Það er þannig lagað ekkert öðruvísi en annað. Ég bý þarna við hliðina á, dætur mínar eru farnar að æfa í KR. Ég er því þarna reglulega. En þegar ég mæti sem þjálfari Breiðabliks, þá er það bara eins og hver annar andstæðingur, það eina sem breytist núna er að það er verið að vígja nýjan völl og mikið húllumhæ í kringum það, en annars er þetta bara leikur eins og hver annar."
Hafa aldrei staldrað við neitt
Undirritaður ræddi við Dóra á miðvikudaginn um lekinn gegn Lech Poznan. Er þeim leik alveg ýtt til hliðar, þarf hann að rífa menn upp eftir 7-1 tapið, eða sjá leikmennirnir um það sjálfir?
„Við ræðum þann leik næst þegar við spilum í þeirri keppni, ég hef engar áhyggjur af hópnum, kjarninn í hópnum hefur farið í gegnum stóra sigra, töp og allt þar á milli í mörg ár. Við höfum aldrei staldrað við eitt né neitt, hvort sem það eru glæstir sigrar eða slæm töp. Ég hef engar áhyggjur af því og við tökum ekkert úr þeim leik með okkur inn í þennan KR leik," segir Dóri.
Athugasemdir