Newcastle leitar að mögulegum arftaka Isak - Man City aftur á eftir Livramento - Shaw til Sádi-Arabíu?
banner
   lau 26. júlí 2025 10:03
Brynjar Ingi Erluson
Ágúst Hlyns í Vestra (Staðfest)
Mynd: Vestri
Vestri hefur fengið svakalega styrkingu fyrir síðari hluta tímabilsins en Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn í raðir félagsins frá AB í Danmörku.

Daði Berg Jónsson sneri aftur í Víking á dögunum eftir að hafa verið á láni hjá Vestra og kemur Ágúst til með að fylla í skarðið sem Daði skildi eftir sig.

Ágúst er 25 ára gamall og getur leyst flestar sóknarstöðurnar á vellinum.

Hann spilaði með Þór til ellefu ára aldurs áður en hann gekk í raðir Breiðabliks. Hér á landi spilaði hann með Blikum, FH, Val og Víkingi, en erlendis var hann í akademíunni hjá Bröndby og Norwich, ásamt því að hafa leikið með Horsens í dönsku B-deildinni.

Síðustu tvö tímabil hefur hann spilað með AB í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Jóhannesar Karls Guðjónssonar.

Ágúst hefur spilað 35 leiki og skorað 5 mörk með yngri landsliðum Íslands og á 104 leiki í efstu deild á Íslandi.

Vestri greinir frá því að Ágúst Eðvald mætti til Ísafjarðar í morgun og sé á leið á æfingu liðsins.

Liðið mætir ÍBV í Bestu deildinni á morgun en Vestri er í 6. sæti með 19 stig og komið í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.


Athugasemdir
banner