Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   fim 24. mars 2011 09:00
Bjarni Þór Viðarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Styttist í stórmót
U21 árs landslið Íslands mætir Úkraínu í dag
Bjarni Þór Viðarsson
Bjarni Þór Viðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Menn voru afar smeykir þegar flugvallarrútan renndi upp að úkraínsku rellunni, sem flutti okkur yfir til Kiev. Tuttugu sæta vél, tvítugir flugmenn og sögur af rússnesku vélunum fylltu menn af efasemdum.

Nú eru rúmir tveir og hálfur mánuður í stærsta mót íslensks karlalandsliðs frá upphafi. Margir hugsa bara um nafnið u-21, og gera sér ekki grein fyrir stærð mótsins. Til dæmis hafa ekki minni nöfn en Rudi Völler, Raul og Peter Cech verið valdir bestu leikmenn úrslitakeppninnar. Leikmenn liðsins, þjálfarar, sjúkrateymið og delegation-ið (sem mættu reyndar láta sjá sig oftar :) hafa lengi stefnt að því að komast á þetta mót. Þetta verður upplifun sem við eigum seint eftir að gleyma.

Við áttum frábæra undankeppni, vorum næstefstir á eftir Tékkum og skildum núverandi Evrópumeistara Þjóðverja eftir með sárt ennið. Við vorum það lið sem skoraði flest mörk í öllum undanriðlunum og spiluðum svo tvo leiki gegn Skotum sem unnust sannfærandi. Sú tilfinning að komast á EM var frábær, einstakt afrek og í klefanum eftir leik var sungið Ísland á EM. Hélt að gæti bara gerst í íslenska CM!

Undirbúningurinn fyrir EM í Danmörku er kominn af stað, leikur gegn Úkraínu í dag á Valeri Lobanovsky stadium, heimavelli Dynamo Kiev. Úkranía er með sterkt lið en við erum einnig með flott lið og allir leikmenn liðsins eru hungraðir í að sanna sig.

Gott tempó er á æfingum, sést það best á púlsmælum leikmanna sem Hjalti læknir og Robbi Magg physio hafa yfirumsjón með. Á laugardag verður haldið til Englands og hefst þá undirbúningur fyrir stórleikinn gegn sterku liði Englands.

Sektarsjóðurinn er á sínum stað, sektirnar hrannast inn og sumir sætta sig við sektir en aðrir eiga erfitt með að kyngja þeim. Enginn nöfn verða nefnd að sinni!

Með kveðju frá sólskininu í Úkraínu,
Bjarni Þór Viðarsson
fyrirliði u-21 landsliðs Íslands.
banner
banner