KR vann ótrúlegan og dramatískan, 4-3, sigur á Breiðabliki í efri hluta Bestu deildar karla á Meistaravöllum í dag og það í síðasta heimaleik Rúnars Kristinssonar. Fylkir vann þá lífsnauðsynlegan 3-1 sigur á Keflavík í neðri hlutanum.
KR 4 - 3 Breiðablik
0-1 Jason Daði Svanþórsson ('10 )
0-2 Klæmint Andrasson Olsen ('24 )
1-2 Benoný Breki Andrésson ('33 )
1-3 Kristinn Steindórsson ('45 )
2-3 Sigurður Bjartur Hallsson ('52 )
3-3 Kennie Knak Chopart ('92 )
4-3 Anton Ari Einarsson ('93 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn
Jason Daði Svanþórsson kom Blikum á bragðið á 10. mínútu og var hann í raun arkitektinn að þessu marki. Hann keyrði upp völlinn og á Kristinn Steindórsson, sem kom boltanum fyrir markið. Finnur Tómas Pálmason tæklaði boltann í átt að fjærstönginni þar sem Jason var mættur til að klára.
Færeyingurinn Klæmint Olsen gerði annað mark Blika á 24. mínútu og sjötta mark hans í deildinni eftir frábæra sendingu Jasons Daða.
KR-ingar svöruðu á 33. mínútu er Benóný Breki Andrésson skoraði eftir undirbúnings frá SIgurði Bjarti Hallssyni. Hann keyrði á Damir Muminovic og kom boltanum á einan og óvaldaðan Benóný sem átti ekki í vandræðum með að skora.
Markið stuðaði Blika aðeins því KR-ingar voru nálægt því að jafna í sókninni á eftir. Sigurður Bjartur slapp í gegn en skaut boltanum yfir. Höskuldur Gunnlaugsson náði aðeins að trufla hann í skotinu. Stálheppnir Blikar.
KR-ingar voru í leit að jöfnunarmarki er Kristinn Steindórsson gerði þriðja mark Blika þvert gegn gangi leiksins. Anton Ari EInarsson, markvörður Blika, átti langan bolta fram á Klæmint sem skallaði hann áfram til Kristins sem kláraði og kom Blikum í 3-1.
Heimamenn héldu áfram að ógna Blikum í þeim síðari og kom annað marki strax á 52. mínútu er Sigurður Bjartur komst fyrir Damir, og stýrði sendingu Benónýs í netið.
Heppnin var ekki með KR í liði í restina. Liðið kom sér í góða sénsa til að jafna. Birgir Steinn Styrmisson átti skalla eftir hornspyrnu sem Klæmint bjargaði á línu.
KR-ingar gáfust ekki upp. Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði Benóný Breki metin. Theodór Elmar Bjarnason átti sendingu á Kennie Chopart, sem skallaði hann fyrir Benóný og inn.
Dramatíkinni var ekki lokið því aðeins örfáum augnablikum síðar kom sigurmark KR. Luka Rae átti skot sem fór af stönginni, í Anton Ara EInarsson og í netið. Ótrúleg endurkoma KR-inga og Evrópusæti Blika langt í frá tryggt.
Blikar fóru illa að ráði sínu. Liðið er í 3. sæti með 41 stig, en Stjarnan á nú möguleika að fara upp fyrir Blika ef liðið nær í stig gegn Víkingum á morgun. FH getur blandað sér almennilega í baráttuna með sigri á Val í kvöld.
Fylkismenn geta andað léttar
Keflavík 1 - 3 Fylkir
1-0 Edon Osmani ('45 )
1-1 Ásgeir Eyþórsson ('51 )
1-2 Orri Sveinn Stefánsson ('64 )
1-3 Benedikt Daríus Garðarsson ('70 , víti)
Rautt spjald: Sindri Þór Guðmundsson , Keflavík ('79) Lestu um leikinn
Fylkismenn eru skrefi nær því að bjarga sér frá falli úr Bestu deildinni eftir að liðið vann Keflavík, 3-1, á HS-orkuvellinum í dag.
Ekki leit það vel út fyrir Fylki í hálfleik. Edon Osmani skoraði eina markið undir lok hálfleiksins. Boltinn féll fyrir hann eftir hornspyrnu og ákvað hann að leggja hann fyrir sig og hamra honum í gegnum þvöguna og í netið.
Gestirnir ætluðu ekki að fara tómhentir heim úr Keflavík og tókst að snúa við blaðinu í þeim síðari.
Ásgeir Eyþórsson jafnaði á 51. mínútu. Fyrsta skot Péturs Bjarnasonar var varið út á Ásgeir sem skoraði örugglega og stuttu síðar var það annar varnarmaður, Orri Sveinn Stefánsson, sem kom Fylkismönnum í forystu.
Orri fékk boltann í sig eftir hornspyrnu, en hann tekur því og Fylkir komið í 2-1.
Sex mínútum síðar gerði Benedikt Daríus Garðarsson út um leikinn með marki úr vítaspyrnu sem Nikulás Val Gunnarsson fiskaði á Ásgeir Helga Magnússon í markinu.
Ekki batnaði það fyrir heimamenn. Sindri Þór Guðmundsson kom inn af bekknum á 79. mínútu og var varla búinn að vera inni á vellinum í 30 sekúndur áður en hann fór í glórulausa tæklingu á miðjum vell og var rekinn af velli.
Fylkismenn sigldu þessum sigri örugglega heim í síðari hálfleiknum og kemur þetta liðinu í frábæra stöðu fyrir lokaumferðina. Liðið er með 26 stig í 9. sæti, með fimm stiga forystu á ÍBV sem er í næst neðsta sætinu. Fylkir líklega búið að bjarga sér frá falli.
Stöðutaflan
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | |
Stöðutaflan
| L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | |
Athugasemdir




