Það fór fram virkilega áhugaverður fyrirlestur í Háskóla Reykjavíkur í vikunni. Mark Russell, prófessor við Leeds Trinity University á Englandi, hélt þá opinn fyrirlestur um rannsóknir sínar á hámörkun hálfleiksvenja í liðsíþróttum.
Prófessor Mark Russell er afkastamikill rannsakandi og fjalla rannsóknir hans um viðfangsefni tengd næringu og hagnýtri þjálfunarlífeðlisfræði fyrir liðsíþróttir. Hann kom hingað til að kynna rannsóknir sínar á hálfleiksvenjum.
Prófessor Mark Russell er afkastamikill rannsakandi og fjalla rannsóknir hans um viðfangsefni tengd næringu og hagnýtri þjálfunarlífeðlisfræði fyrir liðsíþróttir. Hann kom hingað til að kynna rannsóknir sínar á hálfleiksvenjum.
„Fyrirlesturinn snerist um árangur hjá afreksíþróttafólki, sérstaklega þegar kemur að hálfleiksvenjum í liðsíþróttum. Við erum þá að fókusa á hvernig hálfleikurinn getur nýst þannig að hann hafi góð áhrif á seinni hálfleikinn, sérstaklega á fyrstu stig seinni hálfleiksins," segir prófessorinn í samtali við Fótbolta.net.
„Ég kom hérna með fyrirlesturinn í gegnum Chris Curtis sem vinnur hjá Háskólanum í Reykjavík. Chris er fyrrum doktorsnemi hjá mér í Leeds. Tengingin okkar hefur þróast út frá því. Vonandi er þetta byrjunin á lengra sambandi því það er gaman að geta boðið upp á tækifærið að deila rannsóknum okkur með fólki hér á Íslandi."
Christopher Curtis tók til starfa hjá íþróttafræðideild HR fyrr á þessu ári. Hann hafði áður starfað sem gestakennari við skólann en fluttist alfarið yfir í september síðastliðnum frá London. Chris hefur starfað bæði í fræðasamfélaginu í um áratug og innan íþróttaheimsins síðustu 15 ár og sérhæft sig þar í næringarfræði íþróttafólks. Hann hefur m.a. unnið með liðum í ensku úrvalsdeildinni.
Þjálfarar í salnum
Fyrirlesturinn var vel sóttur, bæði á staðnum og í gegnum fjarfundarbúnað. Á meðal þeirra sem voru í salnum voru Davíð Snorri Jónasson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta, og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, styrktarþjálfari kvennalandsliðs Íslands. Þá mátti einnig sjá Sigurvin Ólafsson, þjálfara Þróttar, í salnum.
„Mér fannst fyrirlestrinum tekið vel. Það var vel mætt í salinn og á netinu líka og ég fékk góðar spurningar. Ég vona að þau sem hafi verið viðstödd hafi eitthvað geta tekið út úr þessu sem þau geta nýtt í sína eigin vinnu," segir Russell.
En hvernig byrjaðir þú á þessum rannsóknum?
„Ég hef alltaf einbeitt mér að rannsóknum sem snúa að liðsíþróttum, sérstaklega fótbolta og rúgbí. Þær niðurstöður sem við höfum birt geta líka hins vegar haft áhrif í öðrum íþróttum eins og handbolta eða körfubolta. Líkamlegu þættirnir eru svipaðir. Við erum að skoða strategíur í hálfleikshléum en ég hef alltaf skoðað leikdaginn og hvernig hægt er að bæta frammistöðu þannig að leikdagurinn sé eins góður og hann getur verið," segir Russell.
Sérðu fram á að félög á Íslandi geti nýtt sér þessar rannsóknir?
„Alveg klárlega. Það var partur af því sem heillaði við að koma til Íslands því það eru tækifæri til að beita þessum rannsóknum með ýmsum mismunandi liðum. Það er hægt að nota rannsóknirnar í mörgum íþróttum þar sem eru hlé. Það var mjög gott að fá þjálfara, starfsfólk og nemendur sem hafa áhuga á mismunandi íþróttum saman í herbergið."
Vonar að þetta geti hjálpað félögum á Íslandi
Curtis fagnaði því að fá sinn gamla prófessor til Íslands til að kynna sínar rannsóknir.
„Þetta er eitthvað sem ég hef viljað gera frá því ég kom til Íslands og hóf vinnu mína hjá háskólanum. Að fá Mark hingað yfir til að tala um sínar rannsóknir hefur verið frábært. Ég er alltaf að leita að tækifærum til að þróa þekkingu og skilning þjálfara og nemenda í íþróttavísindum á Íslandi. Það er eitthvað sem ég mun leitast eftir að gera áfram. Ég vona að ég geti hjálpað félögunum á Íslandi í framhaldinu. Markmiðið mitt er að við aukum rannsóknarmöguleikana til að bæta frammistöðuna með vísindalegum gögnum," sagði kennarinn við HR að lokum.
Athugasemdir





