Það var nóg um að vera í Meistaradeild Evrópu í kvöld þar sem ríkjandi meistarar PSG heimsóttu Athletic Bilbao til Baskalands.
Gestirnir frá París voru talsvert sterkara liðið en tókst þó ekki að koma boltanum í netið. Heimamenn í liði Athletic áttu sínar rispur en voru stálheppnir að sleppa úr þessum leik með stig.
PSG er með 13 stig eftir 6 umferðir í Meistaradeildinni, á meðan Athletic situr eftir með 5 stig.
Ítalíumeistarar Napoli heimsóttu á sama tíma Benfica til Portúgal og voru heimamenn talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Richard Ríos skoraði fyrir Benfica og komust Portúgalirnir nálægt því að tvöfalda forystuna fyrir leikhlé, en tókst ekki.
Leandro Barreiro tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks og læstu heimamenn í vörn eftir það. Napoli skapaði einhver hálffæri en tókst ekki að minnka muninn svo lokatölur urðu 2-0.
Benfica er með 6 stig eftir tvo sigra í röð undir stjórn José Mourinho, en lærlingar Antonio Conte í liði Napoli eiga 7 stig.
William Cole Campbell, fyrrum unglingalandsliðsmaður Íslands sem á leiki að baki fyrir FH og Breiðablik, sat þá á bekknum er Borussia Dortmund tók á móti spræku liði Bodö/Glimt frá Noregi.
Campbell er fæddur 2006 og fékk ekki að spreyta sig með stórveldi Dortmund.
Heimamenn voru sterkari aðilinn í Þýskalandi og tóku forystuna í tvígang, en í bæði skiptin tókst Norðmönnum að jafna. Julian Brandt skoraði bæði mörk Dortmund í 2-2 jafntefli, eitt í fyrri hálfleik og annað í þeim seinni.
Dortmund er með 11 stig eftir 6 umferðir á meðan Bodö/Glimt er aðeins með 3 stig.
Að lokum vann Juventus 2-0 sigur gegn David Luiz og félögum í kýpverska stórveldinu Pafos.
Staðan var jöfn eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en heimamenn tóku völdin eftir leikhlé. Weston McKennie og Jonathan David skoruðu mörk liðsins með sex mínútna millibili, eftir stoðsendingar frá Andrea Cambiaso og Kenan Yildiz.
Athletic Bilbao 0 - 0 PSG
Benfica 2 - 0 Napoli
1-0 Richard Rios ('20 )
2-0 Leandro Barreiro ('49 )
Borussia Dortmund 2 - 2 Bodö/Glimt
1-0 Julian Brandt ('18 )
1-1 Haitam Aleesami ('42 )
2-1 Julian Brandt ('51 )
2-2 Jens Hauge ('75 )
Juventus 2 - 0 Pafos FC
1-0 Weston McKennie ('67 )
2-0 Jonathan David ('73 )
Athugasemdir




