| fim 11.des 2025 13:00 Mynd: Helgi Þór Gunnarsson |
|
UTAN VALLAR: Shamrock Rovers með margfalt meiri skuldir en Breiðablik
Í kvöld mætir Breiðablik írska liðinu Shamrock Rovers í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Þá er ekki annað úr vegi en að bera saman félögin utan vallar.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Afkoman
Shamrock Rovers gerir ekki grein fyrir rekstrartekjum og rekstrargjöldum í þeim ársreikningi sem birtur er á netinu og því förum við beint í afkomuna. Breiðablik var rekið með tapi á síðasta ári upp á tæpar 104 milljónir króna á meðan Shamrock Rovers skilaði hagnaði upp á 205,6 milljónir króna.
Eignir
Eignir Breiðabliks námu 432,8 milljónum króna á síðasta ári en eignir Shamrock Rovers voru 127,4% hærri, eða rúmlega 984,2 milljónir króna.
Handbært fé
Þá var handbært fé Shamrock Rovers töluvert hærra, rúmlega 210,6% hærra. Handbært fé Shamrock Rovers stóð í 570,4 milljónum króna í árslok en handbært fé Breiðabliks var 183,7 milljónir króna.
Skuldir
Skuldir Breiðabliks voru þó töluvert lægri en þær stóðu í 200,5 milljónum króna. Skuldir Shamrock Rovers námu hins vegar 915,6 milljónum króna í árslok 2024. Þá var skuldahlutfallið 46,3% hjá Breiðablik en 93,0% hjá Shamrock Rovers.
Eigið fé
Þá var eigið fé Breiðablik 232,3 milljónir króna eða 238,5% hærra en eigið fé Shamrock Rovers sem nam 68,6 milljónum króna.



