Þremur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í Meistaradeild Evrópu þar sem Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í 2-2 jafntefli hjá FC Bayern.
Bayern heimsótti Atlético Madrid og lenti undir eftir mark úr vítaspyrnu snemma leiks.
Giulia Gwinn klúðraði vítaspyrnu fyrir Bayern í upphafi síðari hálfleiks en Pernille Harder skoraði ellefu mínútum síðar.
Bayern fékk hættulegri færi í nokkuð jöfnum slag og tók forystuna með öðru marki frá Harder sem hún skoraði á 78. mínútu. Heimakonur í Atlético gáfust þó aldrei upp og náðu að setja jöfnunarmark á lokamínútum venjulegs leiktíma til að bjarga stigi.
Bayern er með 10 stig eftir 5 umferðir, þremur stigum meira heldur en Atlético.
Á sama tíma vann Chelsea sex marka stórsigur á AS Roma þar sem leikmenn skiptu mörkunum systurlega á milli sín. Chelsea situr í þriðja sæti með 11 stig eftir sigurinn, en Roma er aðeins með eitt stig.
Að lokum steinlá Manchester United á heimavelli gegn Lyon þar sem heimakonur sáu varla til sólar gegn sterkum andstæðingum.
Tabitha Chawinga skoraði snemma leiks og hélst staðan 0-1 allt þar til á lokakaflanum. Rauðu djöflarnir gerðu sig ekki líklega til að jafna metin og áttu aðeins þrjár marktilraunir í leiknum, en engin þeirra hæfði markrammann.
Daelle Melchie Dumornay skoraði tvennu fyrir Lyon á lokakafla leiksins svo lokatölur urðu 0-3. Lyon deilir toppsæti Meistaradeildarinnar með Barcelona þar sem bæði lið eiga 13 stig eftir 5 umferðir. Man Utd er með 9 stig eftir tvo tapleiki í röð.
Atletico Madrid W 2 - 2 Bayern W
1-0 Vilde Boe Risa ('13, víti)
1-0 Giulia Gwinn, misnotað víti ('52)
1-1 Pernille Harder ('63 )
1-2 Pernille Harder ('78 )
2-2 Fiamma Iannuzzi ('88 )
Chelsea W 6 - 0 Roma W
1-0 Valentina Bergamaschi ('13, sjálfsmark)
2-0 Wieke Kaptein ('26 )
3-0 Johanna Rytting Kaneryd ('44 )
4-0 Sjoeke Nusken ('51, víti )
5-0 Maika Hamano ('77 )
6-0 Lucy Bronze ('86 )
Manchester Utd W 0 - 3 Lyon W
0-1 Tabitha Chawinga ('12 )
0-2 Daelle Melchie Dumornay ('81 )
0-3 Daelle Melchie Dumornay ('90 )
Athugasemdir



