Sádar gera allt til að fá Salah - Semenyo vill helst fara til Liverpool - Liverpool og Barca vilja Guehi
   mið 10. desember 2025 18:30
Ívan Guðjón Baldursson
Maresca: Tvö stig í fjórum leikjum eru ekki viðunandi
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Enzo Maresca þjálfari Chelsea var ekki kátur eftir 2-1 tap gegn Atalanta í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi. Þetta var fjórði leikurinn í röð án sigurs og jafnframt fimmti sigurlausi útileikur liðsins í röð í Meistaradeildinni - Chelsea er með fjögur töp og eitt jafntefli í síðustu fimm útileikjum í keppninni.

Joao Pedro náði forystunni fyrir Chelsea í fyrri hálfleik en Charles De Ketelaere svaraði fyrir heimamenn í Bergamó með marki og stoðsendingu í seinni hálfleiknum.

„Tvö stig í fjórum leikjum eru ekki viðunandi, við verðum að gera betur," sagði Maresca að leikslokum. „Við vorum sterkara liðið í fyrri hálfleik og stjórnuðum gangi mála. Í seinni hálfleik misstum við tökin eftir að við fengum jöfnunarmarkið á okkur. Við þurfum að vinna sem fyrst til að snúa þessu gengi við.

„Við erum vonsviknir útaf því að við komum í þennan leik til að sigra. Við byrjuðum vel en opnuðum okkur svo alltof mikið í seinni hálfleik. Við verðum að komast yfir þetta og setja einbeitinguna strax á undirbúning fyrir næsta leik útaf því að við erum að spila nánast á tveggja daga fresti."


Það er mjög langt síðan Chelsea leiddi síðast í hálfleik í Evrópuleik og tapaði svo viðureigninni, það hafði ekki gerst í 41 Evrópuleik fyrir gærkvöldið. Jafnframt var þetta annar sigur í sögu Atalanta gegn ensku félagsliði í átta tilraunum.

Maresca var svo spurður út í Wesley Fofana sem fór meiddur af velli í tapinu og Estevao sem var ónotaður varamaður.

„Wes (Fofana) meiddist á auga, hann getur ekki séð vel út um það. Vonandi verður hann klár í slaginn um helgina.

„Planið var að skipta Estevao eða Andrey Santos inn en það fór um þúfur útaf meiðslunum."


Þessi ummæli hafa vakið athygli vegna þess að Maresca átti eina skiptingu eftir á lokakaflanum, sem hann kaus að nýta ekki.

Chelsea tekur á móti Everton í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Liðið situr í 5. sæti deildarinnar með 25 stig eftir 15 umferðir. Á sama tíma eru lærlingar Maresca með 10 stig eftir 6 umferðir í Meistaradeildinni.
Athugasemdir
banner