
Arsenal hefur gefið hollensku markamaskínunni Vivianne Miedema frí til að hlaða batteríin.
Það er búist við því að hin 26 ára gamla Miedema muni snúa aftur eftir landsleikjahlé en hún fær líka að hvíla í því þar sem hún var ekki valin í landsliðshóp Hollands fyrir leiki gegn Kosta Ríku og Danmörku 11. og 15. nóvember næstkomandi.
Arsenal segir að Miedema fái gott frí til þess að slaka aðeins á og hlaða batteríin. Hún missir af leik gegn Leicester.
Það hefur verið mikið að gera hjá Miedema upp á síðkastið. Hún fékk lítið sumarfrí þar sem hún var í lykilhlutverki hjá Hollandi á Evrópumótinu.
Miedema er einn besti sóknarmaður í heimi en hún hefur farið erfiðlega af stað í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og aðeins skorað tvö mörk. Hún fær núna tíma til að hvíla sig og koma sér aftur í sitt besta form.
Athugasemdir