Chelsea tilbúið að selja Enzo - Man Utd vill Gomes - Anderson og Wharton líka á óskalista United
   mán 19. janúar 2026 14:15
Kári Snorrason
Íslenskir stuðningsmenn Tottenham tjá sig um Frank - „Hann getur farið að vinna í Lególandi“
Sá danski er óvinsæll meðal stuðningsmanna Tottenham.
Sá danski er óvinsæll meðal stuðningsmanna Tottenham.
Mynd: EPA
Ingimar Helgi Finnsson og Hjálmar Örn.
Ingimar Helgi Finnsson og Hjálmar Örn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ekki það að það hafi truflað mig mikið persónulega, en þá lét hann mynda sig með Arsenal bolla um daginn, tapaði svo þeim leik gegn Bournemouth og þetta var eins og atriði úr Klovn.“
„Ekki það að það hafi truflað mig mikið persónulega, en þá lét hann mynda sig með Arsenal bolla um daginn, tapaði svo þeim leik gegn Bournemouth og þetta var eins og atriði úr Klovn.“
Mynd: Twitter
Pochettino hefur verið orðaður við endurkomu til Lundúna. Hann er núverandi þjálfari bandaríska landsliðsins.
Pochettino hefur verið orðaður við endurkomu til Lundúna. Hann er núverandi þjálfari bandaríska landsliðsins.
Mynd: EPA
„Á fyrsta tímabilinu spilaði hann geggjaðan fótbolta og á seinna vann hann bikar. Hvað vilja menn meira frá Spurs?“
„Á fyrsta tímabilinu spilaði hann geggjaðan fótbolta og á seinna vann hann bikar. Hvað vilja menn meira frá Spurs?“
Mynd: EPA
Tottenham er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Tottenham er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: EPA
„Ég held að við getum ekki látið okkur dreyma um alvöru stjóra eins og Xavi eða Alonso.“
„Ég held að við getum ekki látið okkur dreyma um alvöru stjóra eins og Xavi eða Alonso.“
Mynd: EPA
„Inn með Xabi og áfram gakk.“
„Inn með Xabi og áfram gakk.“
Mynd: EPA
Víkingurinn og Tottenham-maðurinn Hörður Ágústsson.
Víkingurinn og Tottenham-maðurinn Hörður Ágústsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Thomas Frank er í vægast sagt heitu sæti hjá Tottenham eftir að liðið tapaði 1-2 fyrir West Ham um helgina. Thomas Frank tók við liðinu í sumar af Ange Postecoglou. Tottenham situr nú í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins sjö sigra í 22 leikjum.

Við hjá Fótbolta.net tókum púlsinn á nokkrum stuðningsmönnum Tottenham og spurðum þá út í Danann. Stuðningsmennirnir fengu eftirfarandi þrjár spurningar lagðar fyrir sig:

1) Á að láta Thomas Frank fara?

2) Hvað hefur farið úrskeiðis hjá Dananum?

3) Hver á að taka við liðinu?

Hjálmar Örn Jóhannsson, skemmtikraftur
1) Hann þarf að fara strax og í raun fyrir löngu, ég var harðorður um hann í Dr.football og fékk gagnrýni fyrir en það er heldur betur að reynast rétt.

2) Allt í raun, hann missti klefann fyrir löngu, hann ætlaði sér einhverja Brentford nálgun hjá Tottenham en það virkar bara ekki. Klisja og allt það en hann hefur enn ekki fattað hvað er besta byrjunarliðið sitt.

3) Ég hef lengi haft augastað á Italinao hjá Bologna, en ef ekki hann þá þarf að brjóta bankann og keyra Alonso inn. Ég myndi jafnvel vilja sjá Southgate taka þetta fram í maí og skoða síðan framhaldið.

Birgir Ólafsson, formaður Tottenham klúbbsins
1) JÁ. Liðið er ekki á neinni vegferð - lítið sem ekkert breyst frá slæmu tímabili í deild ´24-25 undir stjórn Ange. Þar að auki er orðið bara leiðinlegt að fylgjast með Tottenham í allflestum leikjum. Leikmenn eru búnir að missa trú á honum og stuðningsmenn líka. Hann getur eflaust fengið starf í Legolandi.

2) Ég held hann sé bara ekki nægilega stór karakter til að vera með lið eins og Tottenham. Og svo hefur hann ekki náð neinum árangri með liðið, vinnur ekki leiki og tapar fyrir botnliðum trekk í trekk.

3) Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Ég hef í raun ekki hugsað svo langt. Alla vega er ég ekki hlynntur endurkomum þar sem t.d. er verið að orða Pochettino við liðið. Ég held að við getum ekki látið okkur dreyma um alvöru stjóra eins og Xavi eða Alonso, kannski þarf bara að grafa upp Tottenham legend sem er með hjartað á réttum stað.

Ingimar Helgi Finnsson, Litla flugvélin
1) Þetta er erfið spurning að mörgu leyti. Stór partur af mér óskaði þess að hann fengi að klára tímabilið sama hvað, til þess að setja sitt mark á liðið. Liðið hefur glímt við mikil meiðsli lykilmanna og hann hefur aldrei getað stillt upp sínu besta liði.

Að því sögðu er því miður komið að því að kalla þetta gott. Thomas Frank virðist því miður ekki hafa náð að stækka sig og verða betri með því að taka við stærra giggi. Liðið spilar leiðinlegan fótbolta og andrúmsloftið í kringum liðið er orðið mjög toxic. Liðið situr í 14. sæti einungis 10 stigum frá falli, honum tókst að detta út úr báðum bikarkeppnunum snemma. Liðið stendur ágætlega að vígi í meistaradeildinni en var hrikalega heppið með leikjaprógram þar.
Eftir góða byrjun hefur liðið orðið verra og verra.

2) Eftir góða byrjun á tímabilinu blésu ferskir vindar um White Hart Lane (ég kalla hann ennþá það), ég myndi segja að heimaleikurinn við Chelsea 1. nóvember sé upphafið af endinum hjá Thomasi. Liðið spilaði hörmulega í þeim leik á eftir þessum leik komu leikir við Manchester United og Arsenal í deildinni þar sem liðið spilaði hörmulega einnig. Varfærnislegur beltis- og axlabandastíll hefur farið rosalega í taugarnar á stuðningsmönnum og er liðið eitt leiðinlegasta lið deildarinnar áhorfs.

Það er svo eitt og annað utan vallar sem hefur ekki tekist vel hjá honum. Á blaðamannafundum og viðtölum hefur hann einnig fallið á prófinu að mínu mati. Með fullri virðingu fyrir Brentford, þá virðist hann ennþá tala eins og hann sé stjóri þeirra.
Ekki það að það hafi truflað mig mikið persónulega, en þá lét hann mynda sig með Arsenal bolla um daginn, tapaði svo þeim leik gegn Bournemouth og þetta var eins og atriði úr Klovn.

3) Það er svo stóra spurningin. Ef að Levy væri ennþá yfir þessu batteríi væri hann löngu farinn. Ég held að Thomas Frank eigi 90 mínútur eftir sem stjóri Tottenham, hann mun fá að stýra leiknum gegn Dortmund á miðvikudaginn og svo verður hann látinn taka poka sinn, alveg sama hver úrslit leiksins verða.

Það er verið að leita að eftirmanni hans as we speak.
Þar sem ég er mikill rómantíker þá hefði ég viljað fá Maurico Pochettino aftur. Í þetta skiptið þarf að styðja hann á leikmannamarkaðnum. Það sem gerir þetta erfitt um vik er að hann mun stýra USA á HM í sumar og því er ekki hlaupið að því að ráða hann. Allt frá því að Levy rak Maurico Pochettino hefur hann daðrað við endurkomu og hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji koma aftur einn daginn. Vonandi kemur sá dagur fyrr en síðar.

Garðar Stefán Nikulás Sigurgeirsson, verkefnisstjóri fótboltadeildar KA
1) Já það á að láta Thomas Frank fara. Hann er ekki að vinna leiki og hann er ekki að spila skemmtilegan fótbolta. Ég er oftast til í að gefa þjálfurum mjög góðan tíma, til þess að þeir geti komið sínum áherslum til skila. En það er bara morgunljóst að Frank passar ekki í þetta gigg.

2) Tottenham hefur hefð fyrir því að spila sóknarbolta, stuðningsmennirnir gera mikla kröfu á að liðið sé að spila djarft og að þeir vilji alltaf vera meira með boltan en andstæðingurinn. Frankarinn er með allt niðrum sig þar. Hann er eins og C týpan af Arteta, mjög dapur fótbolti. Svo hefur ekki hjálpað honum að hann hefur verið að bauna á stuðningsmenn í viðtölum og talað niður klúbbinn öfugt við það sem Ange Postecoglou gerði. Sem var geggjaður í öllum viðtölum og spilaði geggjaðan fótbolta þegar hann hafði mannskap til, í rauninni fullkominn stjóri fyrir Spurs.
Á fyrsta tímabilinu spilaði hann geggjaðan fótbolta og á seinna vann hann bikar. Hvað vilja menn meira frá Spurs?

3) Ég væri til í að fá Pochettino aftur, bara fá smá tilfinningar aftur í þetta og samheldni meðal stuðningsmanna og auðvitað sóknarbolta. Annars eru fleiri kostir eins og Alonso, De Zerbi. Bara ekki einhvern varnarsinnaðan, takk.

Hörður Ágústsson, Livey
1) Já. Það er engin spurning í mínum huga að hans tími er liðinn hjá Tottenham. Hvort sem það sé sanngjarnt eða ekki þá er það staðan. Þegar hann var ráðinn fannst mér Tottenham vera að taka yfirvegaða ákvörðun, stjóri með reynslu úr deildinni og aðili með að því er virtist mikinn fótboltaheila. Kannski væri hann svarið við þessu chaos sem hefur verið hjá liðinu síðan Conte var látinn fara. En annað hefur komið á daginn.

2) Hann virðist vera mjög ósveigjanlegur og virðist ekki hafa hæfileikann til að bregðast við þegar hlutirnir eru bersýnilega ekki að ganga upp. Einnig hvernig hann hefur meðhöndlað leikmenn eins og Lucas Bergvall er stórfurðulegt. Það er augljóst að Bergvall er ekki "tía" en hefur trekk í trekk verið spilað þar. Svo tekur hann öll löng innköst. Í stuttu máli þá held ég að það hafi bara komið í ljós að hann ræður ekki við sviðsljósið og það skín ansi bjart ljós á Tottenham, sérstaklega þegar það gengur ekki vel.

Mun stærri prófílar en Thomas Frank hafa komið, reynt sitt besta og gefist upp á samskiptunum við stjórnendur og á endanum snúast aðdáendur gegn þjálfaranum þar sem hann fær ekki að kaupa þá leikmenn sem hann vill eða þarf að sætta sig við næst efstu eða neðri hillur varðandi gæði leikmanna sem á að kaupa. Ég hef alveg samúð með stöðunni sem Thomas er í en á sama tíma gerir Tottenham við hann langtímasamning sem hann vill ekkert losa sig úr að fyrra bragði. Það er því komin upp störukeppni milli klúbbsins og Thomas Frank sem endar bara á einn veg - að Thomas Frank verður rekinn með öllum þeim kostnaði sem því fylgir. Af hverju ekki er búið að reka hann eftir margar ömurlegar frammistöður í röð er vonandi tengt því að samtöl við nýjan þjálfara eru enn í vinnslu.

3) Fyrir mér er bara einn aðili sem stendur algjörlega upp úr þeim sem eru í boði í dag og ég held ég geti sagt að ég myndi vilja fá hann ef ég mætti velja hvaða þjálfara sem er í heiminum. Xabi Alonso var rekinn frá Real Madrid um daginn og ef það er ekki búið að bjóða honum gull og græna skóga þá þarf stjórnendateymi Tottenham að endurskoða sín mál í heild sinni. Xavi er líka þjálfari sem ég myndi vilja sjá en hann væri númer 2 á eftir hálfnafna sínum Xabi.

Svo er eitt með okkur Tottenham aðdáendur að við elskum fátt meira en nostalgíuna og þar kemur Mauricio Pochettino sterkur inn. Hann er hinsvegar á leiðinni á HM 2026 með Bandaríkin og hann mun ekkert hætta við þau plön þó að Tottenham biðji rosa fallega. Svo er ég ekki hrifinn af því að fara aftur til fortíðar til að leysa vandamál framtíðarinnar. Veit ekki um mörg dæmi þess að það hafi virkað.

Það sem ég held að muni gerast er annað af þessu tvennu.
a) Tottenham rekur Thomas Frank og ræður Ryan Mason sem tímabundinn stjóra út tímabilið. Markmiðið verður að spila ungum leikmönnum og halda sér í deildinni, því það er ekki fjarstæðukennt að 2-3 tapleikir í röð í viðbót setur okkur bara í alvöru fallbaráttu. Svo muni Pochettino koma að loknu HM.

b) Hinn möguleikinn og það sem ég vona að sé að gerast er að stjórnendur Tottenham átti sig á því að nýr völlur, hæstu viðburðatekjur í deildinni, besta æfingasvæðið og allt það - það skiptir engu máli nema að árangur fylgi. Það er enginn að biðja um að við verðum instant title contenders en hvernig síðustu 2 árin hafa litið út þá er bara hlægilegt að fylgjast með liðinu. Að ráða Xabi Alonso strax og losa sig við danska hryðjuverkamanninn væru mjög skýr og mjög sterk skilaboð inn í aðdáendahóp sem er gjörsamlega búinn á því hvað varðar kaup úr neðri hillum á leikmönnum og markmið sem snúast fyrst og fremst um að ársreikningurinn sé glæsilegur. Það skiptir engu hversu glæsilegur ársreikningurinn er í dag ef árangurinn er enginn - því þá fer fyrst allt í köku. Aðdáendur Tottenham hafa ekki meiri þolinmæði.

Inn með Xabi og áfram gakk. Takk.
Athugasemdir
banner
banner