Chelsea tilbúið að selja Enzo - Man Utd vill Gomes - Anderson og Wharton líka á óskalista United
banner
   mán 19. janúar 2026 22:01
Brynjar Ingi Erluson
Frumburður David Beckham lætur allt flakka - „Ég vil ekki sættast við þau“
Brooklyn og David þegar allt lék í lyndi
Brooklyn og David þegar allt lék í lyndi
Mynd: EPA
Brooklyn segir móður sína hafa verið mjög óviðeigandi í brúðkaupinu
Brooklyn segir móður sína hafa verið mjög óviðeigandi í brúðkaupinu
Mynd: EPA
Brooklyn Beckham, frumburður David og Victoriu Beckham, hefur tjáð sig opinberlega um samband sitt við foreldra sína, en hann segir það í molum og er ekki að íhuga að sættast við þau á næstunni, en hann lét allt flakka á Instagram í dag.

Síðasta árið hefur verið rætt um fjarveru Brooklyn á samfélagsmiðlum fjölskyldunnar en alltaf var það talað niður og sagt að ekkert illt væri á milli þeirra.

Brooklyn kvæntist Nicolu Peltz, dóttur bandaríska milljarðamæringsins Nelson Peltz, en Beckham-hjónin voru sögð alfarið á móti sambandi þeirra og hefur sonurinn nú staðfest það sem vill ekkert með foreldra sína hafa en hann vildi tjá sig opinberlega við fylgjendur sína og svara lygasögum.

„Ég vil ekki sættast við fjölskyldu mína. Það er enginn að stjórna mér heldur er ég að standa upp fyrir sjálfum mér í fyrsta sinn,“ sagði Brooklyn sem var á yngri árum í akademíu Arsenal.

„Allt mitt líf hafa foreldrar mínir stjórnað sögunum í fjölmiðlum um fjölskyldu okkar með því að vera með leikþátt á samfélagsmiðlum, fjölskylduviðburðum og allt byggt á fölskum samböndum,“ sagði hann ennfremur.

Kom hann inn á það þegar móðir hans stal fyrsta dansinum í brúðkaupi hans og Nicolu sem hann taldi vera mjög svo óviðeigandi og að móðir hans hafi á elleftu stundu hætt við að gera brúðkaupskjöl fyrir maka sinn. Einnig hafi móðir hans ítrekað boðið fyrrum kærustum hans á viðburði til að gera hann óþægilegan.

Hann segist hafa upplifað mikinn kvíða við það að vera hluti af Beckham-fjölskyldunni sem segist aðeins hugsa um sviðsljósið en sé nú frjáls og að kvíðinn hafi horfið eftir að hann sleit sambandi við fjölskyldu sína.

Einnig hafi hann mætti til Lundúna til að vera viðstaddur stórafmæli föður síns en upplifað mikla höfnun og að faðir hans hafi neitað að hitta þau. David vildi aðeins hitta son sinn undir fjögur augu sem hann sagði vera löðrung í andlitið. Bræður hans hafi þá lokað á hann á samfélagsmiðlum síðasta sumar.

Segir hann þá að eina sem fjölskyldan hugsar um sé Beckham-vörumerkið og að það sé engin ást nema hann birti myndir á samfélagsmiðlum og kasti öllum plönum út um gluggann, jafnvel þó hann hafi öðrum skyldum að gegna.

Þetta er auðvitað bara ein hlið á þessu fjölskyldudrama en David og Victoria hafa ekki tjáð sig um færslur Brooklyn sem voru birtar fyrir um það bil þremur tímum síðan.

David Beckham er átrúnargoð margra. Hann átti glæstan feril með Manchester United og Real Madrid, ásamt því að hafa spilað með AC Milan, Paris Saint-Germain og LA Galaxy. Hann lék 115 A-landsleiki og skoraði 17 mörk, en í dag er hann einn af eigendum Inter Miami og Salford.


Athugasemdir
banner
banner
banner