„Ég flutti fyrir rúmri viku og eðlilega hefur verið í nægu að snúast fyrstu vikuna. Mikið af hlutum sem ég þarf að koma mér inn í.“
Fyrrum atvinnu- og landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason var ráðinn í upphafi árs nýr yfirmaður fótboltamála hjá norska stórliðinu Rosenborg.
Hann kemur til félagsins eftir að hafa starfað hjá Breiðabliki í um eitt og hálft ár sem tæknilegur ráðgjafi.
Fótbolti.net sló á þráðinn til Alfreðs og ræddi við hann um nýja starfið í Þrándheimi. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Hann kemur til félagsins eftir að hafa starfað hjá Breiðabliki í um eitt og hálft ár sem tæknilegur ráðgjafi.
Fótbolti.net sló á þráðinn til Alfreðs og ræddi við hann um nýja starfið í Þrándheimi. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
„Það var haft samband við mig frá aðila sem ég þekki um miðjan desember um hvort að ég hefði áhuga á samtali við lið í Skandinavíu. Ég spurðist fyrir um hvaða lið það væri og það kom í ljós að það væri Rosenborg. Sá sem ræddi við mig var að aðstoða liðið í leit að nýjum yfirmanni knattspyrnumála.
Daginn eftir áttum við fyrsta spjallið sem fór í það að kynnast og heyra hvað þeir höfðu í huga. Út frá því fór þetta í fleiri umferðir, ef svo má segja. Í kringum jólin og áramótin voru þetta umfangsmeiri samtöl um hvað þau óskuðu eftir og hvað þau sáu fyrir sér. Á nýju ári fékk ég þau skilaboð að þau vildu ganga í samningaviðræður við mig. Þá þurfti maður að ákveða sig fljótt. Lífið breytist svolítið á einum degi þegar við náum saman og skrifum undir.“
Einstakt tækifæri
„Auðvitað þarf maður að hugsa á meðan maður er í þessu ferli. En á sama tíma veit maður ekkert hvar maður stendur í því ferli. Maður vildi aldrei setja sig að fullu í þann hugsunarhátt. En því meira sem ég hugsaði um þetta því meira spennandi varð þetta.
Þetta er auðvitað einstakt tækifæri fyrir mig sem hef metnað fyrir að vinna í þessum efnum. Það er smá einstakt að fá tækifæri til að vinna í svona stóru félagi svona snemma á mínum ferli. Sömuleiðis var spennandi hvernig allt hljómaði hjá þeim. Það var margt við þetta tækifæri sem á endanum var of gott til að segja nei við.“
Kom þér á óvart að heyra af áhuga Rosenborg?
„Já, kannski að því leytinu til að ég vissi ekki að þeir væru í leit að yfirmanni fótboltamála og ég var ekki sjálfur að sækjast eftir neinu á þessum tímapunkti. Við fjölskyldan vorum ánægð þar sem við vorum og ætluðum að vera svona í eitt, eitt og hálft ár,“ segir Alfreð sem var búsettur á Marbella.
Fyrsta vikan í Þrándheimi
„Ég flutti fyrir rúmri viku og eðlilega hefur verið í nægu að snúast fyrstu vikuna. Mikið af hlutum sem ég þarf að koma mér inn í. Glugginn er opinn, leikmenn að fara og koma. Síðan þarf ég auðvitað að kynnast starfsfólki og leikmönnum. Það hefur svo sannarlega verið nóg að gera þessa fyrstu daga.“
Sofandi risi
Rosenborg vann 23 Noregsmeistaratitla á árunum 1985-2018 þegar síðasti meistaratitilinn vannst. Liðið hefur verið í ákveðinni lægð undanfarin ár og hafnaði félagið í 7. sæti á síðustu leiktíð. Alfreð segir miklar breytingar verið innan félagsins síðustu tvö ár.
„ÞFélagið fór í gegnum allsherjar strategískar breytingar, þar sem ný stefna var kynnt. Þar var breytt skipulaginu, stjórnskipulaginu, hvernig þeir vilja spila út frá því hvar þeir eru í dag. Það er að einhverju leyti nýtt upphaf. Út frá þessu hafa þeir verið að ráða nýtt fólk sem félagið finnst henta þessari nýju strategíu. Það hefur verið mikið af breytingum og sömuleiðis fjárhagserfiðleikar síðustu fimm árin, fram að síðasta sumri.
Þar voru tvær stórar sölur sem breyta fjárhagsumhverfinu. Það er auðvitað ákveðinn sigurkúltúr yfir Rosenborg, sem er kemur að vissu leyti með smá skugga yfir félagið. Þetta er alltaf viðmiðið. En markmiðið er núna að draga sig aðeins frá því og reyna að vinna út frá því hvar félagið er í dag. Liðið varð síðast meistari árið 2018 og átti mjög góða tíma þau ár. En eftir það komu erfið ár, en aftur á móti sér maður möguleika í því.“
Markmiðið að koma liðinu aftur í fremstu röð
„Það er í rauninni mjög skýrt: Að koma klúbbnum aftur í að vera topp þrjú lið í Noregi. Að vera spila í Evrópu á hverju ári, heillandi fótbolta og gefa ungum leikmönnum séns. Vera með lið sem er að berjast um alla titla. Auðvitað eru lið eins og Bödö/Glimt sem hafa tekið fram úr síðustu ár með fjármunum sem þeir hafa fengið inn úr Evrópukeppnum. Það er erfitt verk að vinna fram undan en við teljum okkur taka góð skref í þá átt. Það mun ekki gerast á einu ári en markmiðið er að við séum að taka framfarir í rétta átt.“
Ertu að horfa til Íslands í leikmannamálum?
„Já eins og til allra annarra markaða. Ég held að það sé gott að ég þekki íslenska markaðinn vel. En eins og staðan er núna vel ég ekki frekar Íslendinga heldur en Dani eða Svía. Það hefur kost að maður getur komist fljótt að því hvernig karakterinn er ef hann er frá Íslandi, það er klárlega kostur sem ég mun pottþétt nýta mér.
Það er ekkert forgangsatriði að fá Íslending, mér er svosem alveg sama hvaðan góðir leikmenn koma. Það eru ákveðnir hlutir sem binda okkur gagnvart útlendingum, við megum bara vera með níu erlenda leikmenn í hópnum. Þannig að aðalmarkaðurinn okkar er sá norski. Megin áherslan mín er að koma mér inn í norska markaðinn.“
Viðtalið má hlusta í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir



