Hinn hálf-íslenski Eyþór Martin Björgólfsson er mættur til skoska úrvalsdeildarfélagsins Motherwell frá Umeå FC í Svíþjóð. Þetta kemur fram í tilkynningu Motherwell í kvöld.
Eyþór Martin er 25 ára gamall framherji sem komst fyrst í fréttirnar árið 2022 er MLS-deildarfélagið Seattle Sounders valdi hann í annarri umferð nýliðavalsins.
Framherjinn er fæddur og uppalinn í Jessheim í Noregi, en faðir hans er íslenskur.
Hann er stór og stæðilegur eða um 1,93 sm á hæð og raðaði inn mörkum með Umeå á síðustu leiktíð. Hann skoraði 15 mörk í 29 leikjum með sænska liðinu sem hafnaði í neðsta sæti B-deildarinnar.
Eftir tímabilið var hann frjáls ferða sinna en hann hefur samið við Motherwell í Skotlandi til 2028.
Íslendingarnir eru því þrír í skosku úrvalsdeildinni en Kjartan Már Kjartansson leikur með Aberdeen og þá er Tómas Bent Magnússon á mála hjá toppliði Hearts.
Motherwell er í 4. sæti deildarinnar með 37 stig, þrettán stigum frá toppnum.
We got our man ????
— Motherwell FC (@MotherwellFC) January 19, 2026
Welcome to the club, Eythor.
Athugasemdir


