Mateta og Abraham á lista Villa - Tveir leikmenn orðaðir við Man Utd - Tottenham vill fá Curtis Jones
   mið 21. janúar 2026 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Lárus Orri: Leikmenn sem félagið hefur verið að leitast eftir
Lárus Orri og Rúnar Már Sigurjónsson.
Lárus Orri og Rúnar Már Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson skrifaði undir tveggja ára samning við ÍA.
Guðmundur Þórarinsson skrifaði undir tveggja ára samning við ÍA.
Mynd: ÍA
Gísli Eyjólfsson samdi við ÍA fyrir áramót.
Gísli Eyjólfsson samdi við ÍA fyrir áramót.
Mynd: ÍA
'Það er að komast mynd á þetta, en það á meira eftir að gerast.'
'Það er að komast mynd á þetta, en það á meira eftir að gerast.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Völlurinn í júlí 2025.
Völlurinn í júlí 2025.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Þórarinsson gekk í raðir ÍA á dögunum, skrifaði undir tveggja ára samning á Skaganum. Hann er kominn heim til Íslands eftir rúman áratug erlendis sem atvinnumaður.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net ræddu ÍA, FH, Keflavík og Valur við hann áður en hann skrifaði undir. ÍA varð niðurstaðan og sagði Guðmundur frá því í viðtali að hann hefði fengið mörg símtöl frá Skagamönnum í aðdragandanum.

Fótbolti.net ræddi við Lárus Orra Sigurðsson, þjálfara ÍA, um komu Guðmundar.

Félagið lengi haft augastað á þeim
„Það er frábært að hafa landað honum. Hann, Gísli (Eyjólfsson), Rúnar (Már Sigurjónsson) og Viktor (Jónsson) eru strákar sem við viljum hafa í liðinu okkar. Ekki bara út af því að þeir eru góðir í fótbolta, heldur út af reynslunni þeirra og það sem þeir koma með inn í hópinn. Þeir hækka staðalinn á félaginu."

„Varðandi komu Gumma og Gísla þá er þetta eitthvað sem félagið hefur stefnt að lengi. Ef þessi möguleikinn hefði komið upp á sama tíma í fyrra þá hefði Skaginn líka tekið þá. Þetta eru leikmenn sem félagið hefur verið að leitast eftir því að fá,"
segir Lárus Orri.

„Við erum mjög ánægðir að ná góðum leikmönnum til okkar. Ég held að það sem við höfum upp á að bjóða hljóti að vera heillandi fyrir öfluga og metnaðargjarna leikmenn; hvernig framtíðarsýnin er, hvernig félagið er rekið og aðstaðan sem er hér."

Meira á eftir að gerast
Hvernig sérðu hópinn í dag, ertu sáttur við útlitið á hópnum?

„Það er að komast mynd á þetta, en það á meira eftir að gerast. Það eiga pottþétt einhverjir eftir að fara frá okkur og vonandi eiga einhverjir eftir að koma inn," segir Lárus sem vill ekki uppljóstra hvaða stöður hann vill styrkja.

Komnir
Gísli Eyjólfsson frá Halmstad
Guðmundur Þórarinsson frá Noah
Rafael Máni Þrastarson frá Fjölni
Breki Þór Hermannsson frá Grindavík (var á láni)
Ingi Þór Sigurðsson frá Grindavík (var á láni)
Ármann Ingi Finnbogason frá Grindavík (var á láni)
Hilmar Elís Hilmarsson frá Fjölni (var á láni)

Farnir
Albert Hafsteinsson
Marko Vardic
Hlynur Sævar Jónsson í Fylki
Guðfinnur Þór Leósson
Jonas Gemmer
Jón Sölvi Símonarson í Breiðablik (var á láni)
Arnleifur Hjörleifsson í Njarðvík (var á láni)
Árni Salvar Heimisson (var á láni hjá Grindavík)

Sér Gumma fyrir sér sem miðjumann
Hvar sérðu Guðmund fyrir þér á vellinum?

„Á miðjunni," svaraði Lárus einfaldlega. „Það er frábært að fá leikmenn sem geta leyst fleiri en eina stöðu og margir leikmenn hjá okkur sem geta leyst fleiri en eina stöðu, en við sækjum hann sem miðjumann."

„Ég held að það viti allir sem fylgjast með fótbolta á Íslandi að hann er mjög góður vinstri bakvörður líka. Hann er mjög flottur fótboltamaður, toppkarakter og verður mjög flottur inn í hópinn hjá okkur. Við stefnum að því að nýta hæfileika hans á miðjunni."


Á milli félaganna
ÍA var orðað við Jón Sölva Símonarson fyrir áramót. Hann var á láni hjá ÍA frá Breiðabliki á síðasta ári og ÍA hefur reynt að kaupa hann af Blikum. Hefur ÍA haldið áfram að reyna fá hann?

„Ég get eiginlega ekki tjáð mig um það. Ég sagði það sem mér finnst um Jón Sölva í viðtali fyrir nokkrum mánuðum síðan. Það sem mér finnst um hann hefur ekki breyst. Hann er leikmaður Breiðabliks, er á samningi þar og ef við höfum einhvern áhuga á honum þá fer sú umræða fram á milli félaganna."

Finnst umræðan um völlinn skrítin
Í kjölfar komu Guðmundar hafa vallarmálin hjá ÍA verið til umræðu í hlaðvörpum. ÍA spilar á grasi og hafa gæði vallarins verið gagnrýnd. Það var t.d. ekki hægt að spila á honum í lokaumferð Bestu deildarinnar vegna kulda.

Vilt þú sjá breytingu á vallarmálum?

„Ég skipti mér ekki af því. Mér finnst völlurinn okkar fínn og finnst umræðan um völlinn okkar oft á tíðum skrítin. Völlurinn var í toppstandi allt síðasta sumar. Það var frost í jörðu sem varð til þess að ekki var hægt að spila lokaleikinn á honum."

„Það væri auðvitað alveg meiriháttar ef völlurinn væri upphitaður og það væri frábært ef við hefðum flóðljós. En eins og staðan er í dag hjá okkur er völlurinn mjög flottur og góður grasvöllur sem var í mjög góðu standi síðasta sumar,"
segir Lárus Orri að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner