Þjóðverjinn Jürgen Klopp útilokar ekki að snúa aftur í þjálfun en ekki er útlit fyrir að það verði í bráð enda sé hann ánægður á þeim stað sem hann er í dag.
Klopp þjálfaði Mainz, Borussia Dortmund og Liverpool við frábæran orðstír, en hann hætti með Liverpool fyrir tveimur árum og tók síðan við sem yfirmaður fótboltamála hjá Red Bull.
Hann hefur undanfarnar vikur verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Real Madrid, en hann sjálfur hefur útilokað þann möguleika og segir það ólíklegt að hann muni snúa aftur í þjálfun á næstunni.
„Ég býst ekki við að mér muni snúast hugur, en ég veit það samt ekki. Við erum að byggja hús núna og konan vildi hafa stórt herbergi með öllum bikurunum. Það var annað lítið herbergi þarna og ég sagði það vera nógu stórt því við vitum hversu marga bikara við eigum og það er ekki í myndinni að bæta við.“
„Ég myndi ekki endanlega útiloka eitthvað, en ég er 63 ára gamall og er mjög ánægður hér. Ég bilast ekkert úr spennu ef Real Madrid er að sýna mér áhuga, en þeir hafa hvort er ekki áhuga. Þetta er allt eitthvað slúður í fjölmiðlum. Ég er í samræmi við sjálfan mig og skipti ekki um skoðun á einni nóttu. Þessi staða sem ég er í er eins og kvíðalaus spenna.“
Klopp sagðist hafa verið örlítið hissa þegar Xabi Alonso var látinn fara frá Real Madrid, en á sama tíma var hann ekkert í neinu sjokki enda oft séð umdeildari ákvarðanir hjá Madrídingum.
„Ég var mjög hissa, en á sama tíma ekkert svo hissa. Þetta er Real Madrid, jafnvel Jupp Heynckes var rekinn þrátt fyrir að hafa unnið Meistaradeildina. Ég veit ekki alveg hvað það segir um Real Madrid.“
„Aldrei að segja aldrei, en eins og ég sagði er ég mjög ánægður hér,“ sagði Klopp enn fremur.
Athugasemdir

