Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í Levadiakos unnu fjórða deildarleikinn í röð er það lagði Panetolikos, 3-1, á útivelli í grísku úrvalsdeildinni í kvöld.
Hörður Björgvin er fastamaður og mikilvægur hlekkur í liði Levadiakos sem hefur náð ótrúlegum árangri á tímabilinu.
Í vikunni komst félagið í annað sinn í sögunni í undanúrslit bikarsins þar sem Hörður skoraði sitt fyrsta mark með laglegri aukaspyrnu, en hann var enn og aftur í byrjunarliðinu gegn Panetolikos í kvöld.
Levadiakos fór með þægilega þriggja marka forystu inn í hálfleikinn, en Hörður sneri ekki aftur á völlinn í þeim síðari. Hann varð fyrir smávægilegum meiðslum og þar sem sigurinn var nánast í höfn var ákveðið að taka ekki óþarfa áhættu.
Áætlað er að hann verði búinn að jafna sig fyrir næsta leik Levadiakos sem heimsækir Aris til Thessaloniki um helgina, en Levadiakos er áfram í 4. sæti deildarinnar, sem gefur þáttökurétt í Evrópukeppni, og með níu stiga forystu á næstu lið.
Athugasemdir


