Þórsarinn Orri Sigurjónsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Þrótti í Reykjavík en hann mun sinna styrktarþjálfun hjá meistaraflokki karla- og kvenna.
Orri er uppalinn Þórsari og leikið þar stærstan hluta ferilsins fyrir utan tvö tímabil með Fram en hann sneri aftur til Þórsara fyrir síðustu leiktíð.
Hann spilaði mjög takmarkað á seinna tímabili sínu með Fram vegna höfuðmeiðsla.
Á síðustu leiktíð lék hann 16 leiki er Þór vann Lengjudeildina og tryggði sér sæti í Bestu deildina en þar á meðal lék hann í leiknum gegn Þrótti um toppsætið í Lengjudeildinni. Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, sagði að Orri myndi ekki spila á komandi tímabili en sagðist ekki vita hvort skórnir væru komnir alfarið upp í hillu.
Orri verður þó áfram í kringum fótboltann í sumar en hann er mættur í Þrótt sem nýr styrktarþjálfari hjá meistaraflokki karla- og kvenna en Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, fagnar því ákaflega að fá Orra inn í teymið.
„Það er frábært að fá Orra til starfa hjá okkur, hann býr að góðri reynslu sem leikmaður og er mjög vel undirbúinn til að takast það verkefni á hendur að þjálfa bæði meistaraflokkslið félagsins á næstu árum. Orri bætist í mjög öflugan og samhentan þjálfarahóp í Þrótti, hóp sem hefur mikinn metnað og ætlar sér að ná langt í sínu starfi. Við bjóðum Orra velkominn í Laugardalinn,“ sagði Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, um komu Orra.
Athugasemdir


