Það hefur verið slúðrað um það að Sami Kamel, miðjumaður Keflavíkur, sé undir smásjá félaga í Bestu deildinni.
Kamel er þrítugur danskur sóknarsinnaður miðjumaður sem gekk í raðir Keflavíkur fyrir síðasta tímabil. Hann spilaði 17 leiki með liðinu í Bestu deildinni og skoraði sex mörk. Hann er áfram samningsbundinn Keflavík og hefur spilað með liðinu í Lengjubikarnum í vetur.
Fótbolti.net hafði samband við Luka Jagacic, yfirmann fótboltamála í Keflavík, og spurði hann út í stöðu leikmannsins. Er möguleiki að hann sé á förum frá félaginu?
„Við höfum ekki fengið neina tölvupósta eða símtöl frá félögum í Bestu deildinni varðandi Sami. Hann mun spila með Keflavík í sumar og við erum ánægð að hafa hann í okkar liði," sagði Luka við Fótbolta.net.
Kamel var besti leikmaður Keflavíkur síðasta sumar og hann ætti að geta gert býsna góða hluti í Lengjudeildinni. Það er á hreinu.
Athugasemdir