Síðustu Íslendingaleikjum dagsins er lokið þar sem Hjörtur Hermannsson og Sverrir Ingi Ingason mættust í gríska boltanum.
Hjörtur lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Volos sem hélt hreinu og vann óvæntan sigur gegn Panathinaikos. Sverrir Ingi bar fyrirliðaband Panathinaikos en var skipt af velli á 73. mínútu til að skapa pláss fyrir fleiri sóknarmenn.
Panathinaikos var sterkari aðilinn en tókst ekki að skora svo lokatölur urðu 1-0. Volos er með 15 stig eftir þennan sigur, þremur stigum meira heldur en Panathinaikos sem á leik til góða.
Í danska boltanum fékk Viktor Bjarki Daðason, bráðefnilegur leikmaður FC Kaupmannahafnar, að spila síðustu 20 mínúturnar á heimavelli gegn Fredericia. Honum var skipt inn í stöðunni 2-1 og urðu lokatölur 3-2 fyrir heimamenn.
Viktor Bjarki hefur komið gríðarlega öflugur inn í aðalliðið hjá FCK en honum tókst hvorki að skora né leggja upp í dag. Kaupmannahöfn er með 25 stig eftir 14 umferðir, fimm stigum á eftir toppliði AGF sem á leik til góða.
Daníel Freyr Kristjánsson fékk að spila síðustu 25 mínúturnar í tapliði Fredericia og þá var Rúnar Alex Rúnarsson á bekknum hjá FCK.
Í sænska boltanum voru Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson í byrjunarliði Norrköping sem tapaði á heimavelli gegn Sirius.
Ísak Andri lék allan leikinn en tókst ekki að koma í veg fyrir tap. Sirius var sterkari aðilinn í leiknum og hefði getað unnið stærra, en þetta var fimmti tapleikurinn í röð hjá Norrköping sem er í fallbaráttu fyrir lokaumferðina.
Hinn 18 ára gamli Jónatan Guðni Arnarsson fékk að spila síðustu mínúturnar í tapliði Norrköping.
Að lokum byrjuðu Danijel Dejan Djuric og Logi Hrafn Róbertsson á varamannabekknum hjá Istra 1961 í efstu deild í Króatíu.
Istra gerði 1-1 jafntefli við Vukovar í leik þar sem Danijel fékk að spila síðustu 20 mínúturnar á meðan Logi sat á bekknum.
Istra er í baráttu um þriðja sæti króatísku deildarinnar, sem veitir þátttökurétt í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næstu leiktíð.
Volos 1 - 0 Panathinaikos
Kaupmannahöfn 3 - 2 Fredericia
Norrköping 1 - 2 Sirius
Istra 1 - 1 Vukovar
Athugasemdir


