Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
banner
   þri 21. október 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Samstarf úr kínverska kvennalandsliðinu hjálpaði ÍA
Kaflaskipt tímabil.
Kaflaskipt tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjálfstraustið virkaði lítið en Árni hélt alltaf sæti sínu í liði í liðinu og náði að sýna hversu öflugur hann er.
Sjálfstraustið virkaði lítið en Árni hélt alltaf sæti sínu í liði í liðinu og náði að sýna hversu öflugur hann er.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Björnsson starfaði með Dean Martin og Sigga Ragga hjá kínverska sambandinu. Hann var markmannsþjálfari A-landsliðs karla fyrir nokkrum árum síðan.
Halldór Björnsson starfaði með Dean Martin og Sigga Ragga hjá kínverska sambandinu. Hann var markmannsþjálfari A-landsliðs karla fyrir nokkrum árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Marinó Einarsson náði, eftir ansi bratta byrjun, að snúa við blaðinu. Markmaðurinn átti gott tímabil með ÍA á síðasta tímabili en byrjaði tímabilið 2025 ekki vel, eins og allt Skagaliðið í raun.

Tölfræði hans sýndi að hann hefði ekki átt að fá eins mörg mörk á sig og hann fékk og nokkur klaufaleg mistök. Árni, sem er fæddur 2002, kom fyrst inn í lið ÍA 2021, spilaði þá seinni hlutann og aftur seinni hlutann 2022.

Eftir sem leið á tímabilið stórbatnaði frammistaða Árna og hann var að spila nokkuð vel þrátt fyrir að ÍA náði sér ekki almennilega á strik fyrr en í síðasta mánuði.

Fótbolti.net ræddi við Lárus Orra Sigurðsson, þjálfara ÍA, um Árna.

Hvað gerist hjá honum, hvernig snýr hann þessu við?

„Umræðan hefur snúist um að viðsnúningurinn hafi verið akkúrat þegar ég kem inn, en þetta er miklu flóknara en það að einhver einn maður komi og veifi einhverjum töfrasprota. Þetta er allt hjá honum Árna. Hann er í erfiðri stöðu, það var búið að ganga illa hjá honum, hann var kominn á þann stað að hver einustu mistök sem hann gerði fengu mikla athygli og talað um þau í öllum hlaðvörpum - alls konar stór orð sögð um hann. Hann var kominn í mjög erfiða stöðu, hann stígur upp og óskar eftir að fá aðstoð við þetta. Skaginn hafði samband við Halldór Björnsson til þess að hjálpa honum með þetta áður en ég kom til félagsins," segir Lárus og heldur áfram.

„Árni, Halldór og Dino Hodzic markmannsþjálfari unnu mjög vel saman í því að hjálpa honum að komast aftur á þann stað sem hann komst svo á seinni hluta móts. Árni er mjög góður markmaður og sjálfstraustið skiptir gríðarlega miklu máli hjá markmönnum. Að öðrum ólöstuðum þá hefur Árni verið besti markmaður deildarinnar núna seinni hluta móts."

„Árni steig sjálfur upp og tók þessi mál í sínar hendur og græjar þetta í raun sjálfur með hjálp góðra manna."

„Auðvitað eru líka fleiri atriði í þessu, Árni átti erfitt uppdráttar af því liðið var ekki að spila góða vörn. Um leið og liðið fer að spila betri vörn þá auðveldar það honum og hann stígur upp. 95%-99% af þessu liggur hjá Árna."


Af hverju Halldór Björnsson?

„Hann er flottur markmannsþjálfari og markþjálfi. Dean Martin þekkir hann vel, þeir unnu saman hjá kínverska landsliðinu. Halldór er mjög flottur í því sem hann gerir, hefur komið nokkrum sinnum upp á Skaga, verið í sambandi við Árna og hjálpað honum mikið í gegnum þetta."

Allt unnið í teymisvinnu og margir með vit á fótbolta
„Svona er þetta búið að vera upp á Skaga síðan ég kom þangað, þetta er frábært teymi og á Skaganum er allt saman teymisvinna. Við sitjum inni í þjálfaraherbergi og ræðum alls konar hluti, endalaust af mönnum sem hafa mikið vit á fótbolta: Deano, Stebbi (Stefán Þórðarson), Dino Hodzic, Aron Ýmir og Skarpi (Skarphéðinn Magnússon) sem þjálfar kvennaliðið eru í kringum þetta og svo allt í einu labbar Siggi Jóns inn."

„Það er nóg af mönnum sem hafa vit á fótbolta, menn hjálpast að og það er það sem hefur verið gert. Allir hafa lagt sitt á vogarskálarnar seinni hluta mótsins,"
segir Lárus.
Athugasemdir
banner