Greint hefur verið frá því að Jorge Messi, faðir og umboðsmaður argentínsku stórstjörnunnar Lionel Messi, fundaði með Joan Laporta, forseta Barcelona, í dag.
Samkvæmt fjölmiðlum þar í landi er spænska deildin nýlega búin að samþykkja nýja fjárhagsáætlun Barcelona og getur félagið því bætt leikmönnum við hópinn sinn fyrir næstu leiktíð.
Laporta var þó ekki klár með samningstilboð á fundinum með Jorge Messi í dag en þeir munu halda áfram að vera í samskiptum næstu daga.
Messi vill taka ákvörðun varðandi framtíð sína sem fyrst þar sem sádí-arabíska félagið Al-Hilal hefur boðið honum afar freistandi samningstilboð.
Talið er að Börsungar þurfi að gera Messi að launahæsta leikmanni félagsins til að hann snúi aftur, en það gæti reynst erfitt í ljósi fjárhagsörðugleikanna þar á bæ.
Mögulegt er að Laporta finni einhverja 'skapandi' lausn á samningsviðræðunum. Nokkrir fjölmiðlar telja að hann muni bjóða Messi feðgunum hlut í Barcelona eða prósentu af framtíðarhagnaði félagsins sem launagreiðslu.
„Leo vill snúa aftur til Barcelona og mér þætti einnig vænt um að sjá hann klæðast treyju félagsins á ný," sagði Jorge Messi eftir fundinn með Laporta. „Það er mögulegt að við förum aftur til Barca."