Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 07. desember 2022 15:27
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Andrea Rut: Réttur tímapunktur til að fara úr þægindarammanum
Skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik.
Skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðablik.
Mynd: Heimasíða Breiðabliks
Uppalin í Þrótti en nú er komið að næsta kafla á ferlinum.
Uppalin í Þrótti en nú er komið að næsta kafla á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mér þykir gríðarlega vænt um félagið
Mér þykir gríðarlega vænt um félagið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Rut Bjarnadóttir gekk í raðir Breiðabliks í lok síðasta mánaðar frá uppeldisfélagi sínu Þrótti. Andrea er nítján ára sóknarsinnaður leikmaður sem getur bæði spilað á miðjunni og á kantinum. Hún hefur verið með bestu leikmönnum efstu deildar síðustu tímabil og með þeim allra stoðsendingahæstu.

Í 98 leikjum með Þrótti í deild og bikar skoraði hún sautján mörk. Þá á hún að baki 23 leiki fyrir yngri landsliðin og einn U23 landsleik gegn Eistlandi síðasta sumar sem skráist sem A-landsleikur.

„Mér fannst þetta réttur tímapunktur fyrir mig að taka skrefið í Breiðablik. Ég var búin að vera lengi í meistaraflokknum í Þrótti og taldi þetta vera rétt skrefið fyrir mig núna," sagði Andrea við Fótbolta.net.

„Þau hjá Breiðabliki hafa sýnt að þau eru góð í að þróa unga leikmenn og hjálpað þeim að taka næsta skref á ferlinum. Síðan hafa þær auðvitað náð góðum árangri undanfarin ár sem heillaði mig."

Fékk aðstoð frá fjölskyldunni
Var eitthvað samtal sem sannfærði þig að þetta væri rétta skrefið?

„Það var ekkert sérstakt samtal sem sannfærði mig bara eftir að hafa fundað með þeim og hugsað þetta í smá tíma ákvað ég að hoppa á þetta."

„Fjölskyldan hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun. Aron var með í því ferli, hann var náttúrulega í Breriðabliki og hafði góða reynslu þaðan,"
sagði Andrea aðspurð hvort að bróðir hennar, Aron Bjarnason sem lék á sínum tíma með Breiðabliki en er nú hjá Sirius í Svíþjóð, hefði hjálpað henni.

Nýtti sér ákvæðið til að geta rætt við önnur félög
Hún segist hafa haldið möguleikanum að endursemja við Þrótt opnum eftir að hafa nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum. En hver var pælingin með því að nýta það?

„Ég hafði heyrt af áhuga frá liðum og vildi nýta mér ákvæðið til að ræða við þau og sjá hvað þau höfðu að segja. Það var alveg áhugi frá öðrum félögum en ég ákvað að velja Breiðablik að lokum."

Lítur Andrea á þetta sem skref upp á við?

„Já, Breiðablik hefur verið eitt af bestu liðunum undanfarin ár þannig ég myndi segja það. Ég vildi líka komast í samkeppni og aðeins út úr þægindarammanum."

Andrea vill berjast á toppnum með Breiðabliki.

„Ég vil halda áfram að bæta mig sem leikmaður og síðan vil ég berjast um báða titlana á næstu árum og komast í Evrópukeppnina."

Mjög erfið ákvörðun
Þróttur hefur endað í sætinu fyrir neðan Breiðablik síðustu tvö tímabil. Var þetta erfið ákvörðun?

„Já þetta var mjög erfið ákvörðun, það var erfitt að fara frá Þrótti eftir allt sem við höfðum gert saman undanfarin ár. Ég er mjög ánægð með árin mín í Þrótti og árangurinn sem við höfum náð síðustu ár. Mér þykir gríðarlega vænt um félagið," sagði Andrea.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner