Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 09. júní 2021 21:33
Brynjar Ingi Erluson
Kalvin Phillips: Það er geggjað að hafa Henderson hérna
Kalvin Phillips finnst notalegt að vera í kringum Henderson
Kalvin Phillips finnst notalegt að vera í kringum Henderson
Mynd: EPA
Kalvin Phillips, leikmaður Leeds og enska landsliðsins, skilur ekki gagnrýni Roy Keane á val Gareth Southgate um að hafa Jordan Henderson í enska landsliðshópnum.

Keane, sem er fyrrverandi leikmaður Manchester United og vinnur í dag sem sparkspekingur á ITV, gagnrýndi
Southgate fyrir að hafa valið Henderson.

Henderson meiddist í leik með Liverpool í febrúar og spilaði ekki meira á tímabilinu en var þó í hóp í lokaleiknum gegn Crystal Palace.

Hann hefur unnið að því að koma sér í form og spilaði 45 mínútur í síðasta vináttuleiknum fyrir Evrópumótið.

Keane var knattspyrnustjóri Sunderland hér árum áður og gaf Henderson meðal annars fyrsta tækifærið á vellinum árið 2008 en Phillips telur að þessi gagnrýni sé óréttmæt.

„Fólk er að segja að hann sé ekki í formi og spyr sig af hverju hann er hér en mér persónulega finnst hann góð persóna til að vera í kringum og þá sérstaklega fyrir ungu leikmennina," sagði Phillps við Sky Sports.

„Það er fullt af ungum strákum hérna og eru að spila á sínu fyrsta stórmóti og því er gott að vera með einhvern sem getur miðlað reynslu sinni. Mér finnst geggjað að hafa Jordan hérna hvort sem hann er klár í að spila eða ekki. Það er gott að tala við hann og gaman að hafa hann með okkur því það gerir andrúmsloftið töluvert notalegra," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner