David Moyes þjálfari var himinlifandi eftir frábæran sigur Everton á Villa Park í gær.
Everton lagði toppbaráttulið Aston Villa að velli eftir jafnan leik sem einkenndist af mikilli baráttu. Villa fékk betri færi í leiknum en Thierno Barry skoraði eina markið eftir klaufagang í varnarlínu heimamanna.
„Þetta hefur verið erfið vika fyrir okkur svo þetta er mjög kærkominn sigur," sagði Moyes eftir lokaflautið, en Everton gerði jafntefli við Wolves um síðustu helgi og tapaði svo eftir vítakeppni gegn Sunderland í FA bikarnum í miðri viku.
„Ég er svo stoltur af strákunum fyrir að ná í sigur á þessum útivelli, ég er gríðarlega ánægður með frammistöðuna. Við sköpuðum ekki mörg færi og það er það helsta sem við þurfum að bæta við okkar leik. Við skoruðum eftir varnarmistök hjá þeim."
Moyes er sérstaklega stoltur af þessum sigri miðað við hversu margir leikmenn eru fjarverandi úr leikmannahópnum, ýmist vegna meiðsla eða Afríkukeppninnar.
„Við vorum heppnir á köflum en getum verið svo stoltir sérstaklega miðað við alla lykilmennina sem vantar í liðið okkar. Jimmy Garner var frábær og Harrison (Armstrong) steig upp og átti stórkostlegan leik miðað við hvað hann er ungur og óreyndur. Sama á við um Merlin (Röhl).
„Ég ræð ekki landsliðsvalinu en sumir af strákunum hafa verið að spila virkilega vel á tímabilinu, eins og (James) Garner og (Kiernan) Dewsbury-Hall.
„Við erum ekki lið sem skorar mikið af mörkum svo það er mjög mikilvægt að vera sterkir varnarlega. Ég veit ekki um neitt gott fótboltalið sem er lélegt varnarlega, það er undirstöðuatriði í fótbolta að geta varist vel."
Jordan Pickford markvörður er í enska landsliðinu og þá hafa Jack Grealish og Jarrad Branthwaite einnig gert tilkall til landsliðssætis.
Athugasemdir


