KA er búið að tryggja sér þátttökurétt í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins eftir stórsigur gegn Magna um helgina.
Akureyringar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu sex mörk til að jarða Grenvíkinga.
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Birgir Baldvinsson skoruðu sitthvort markið í fyrri hálfleik með stuttu millibili og gerðu KA-menn út um leikinn í síðari hálfleik.
Valdimar Logi Sævarsson gerði þriðja mark leiksins áður en Hallgrímur Mar bætti öðru marki sínu við. Bjarki Fannar Helgason kom boltanum einnig í netið áður en Snorri Kristinsson setti síðasta markið í 6-0 sigri. Á vefsíðu Knattspyrnudómarafélags Norðurlands segir að Snorri hafi skorað sjötta markið en á X aðgangi KA er Viktor skráður fyrir markinu.
KA mætir nágrönnum sínum og erkifjöndum í Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins eins og svo oft áður. Það er þó ekki víst hvort andstæðingurinn verður Þór eða Þór2 þar sem þessi tvö lið áttust við í undanúrslitaleik í Boganum í gær en úrslitin eiga eftir að berast.
Þór2 er með ungt og öflugt lið sem varð Íslandsmeistari í 2. flokki í fyrra. Þess má geta að Þórsarar voru heppnir að komast upp úr riðlinum sínum á markatölu. Magni vann riðilinn en steinlá svo gegn KA í undanúrslitum. Það vekur einnig athygli að KA endaði í öðru sæti síns riðils á eftir Þór2.
Völsungur lagði KFA að velli á dögunum og skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson, markakóngur Kjarnafæðismótsins frá upphafi, fyrsta mark leiksins. Andri Valur Bergmann Steingrímsson gerði tvennu í síðari hálfleik og innsiglaði þannig 3-1 sigur.
Andri Valur er sjötti Bergmann bróðirinn til að skora fyrir Völsung í Kjarnafæðismótinu. Benedikt Helgi Valsson skoraði eina mark KFA í tapinu.
Ungt lið KA2 vann svo sanngjarnan 3-1 sigur gegn Dalvík/Reyni þar sem Viktor Máni Sævarsson, Emil Ari Steinþórsson og Steinar Dagur Bergvinsson skoruðu mörkin. Steinar Dagur hefur verið að gera frábæra hluti á mótinu þar sem hann er búinn að raða inn mörkum með KA4.
Áki Sölvason gerði eina mark Dalvíkinga með glæsilegu skoti á 39. mínútu.
Það fóru margir aðrir leikir fram í riðlakeppninni þar sem KA vann meðal annars 9-1 sigur á Völsungi á meðan Þór gerði jafntefli við KFA í fyrsta leik Ágústs Eðvalds Hlynssonar fyrir liðið.
KA 6 - 0 Magni
Völsungur 3 - 1 KFA
KA2 3 - 1 Dalvík/Reynir
KA 9 - 1 Völsungur
Þór 0 - 0 KFA
Þór3 1 - 1 Höttur
KF 3 - 0 Þór4
Magni 4 - 1 KA2
Tindastóll 6 - 1 KA3
Þór3 4 - 0 Hamrarnir
KA4 2 - 0 Höttur
KA4 1 - 3 Þór4
Sæti í úrslitum Kjarnafæði mótsins tryggt eftir sigur gegn Magna Grenivík! ???????? #LifiFyrirKA pic.twitter.com/CQoEgchW5E
— KA (@KAakureyri) January 17, 2026
Athugasemdir


