Troy Deeney er búinn að velja lið vikunnar í ensku úrvalsdeildinni fyrir hönd BBC og þar má finna tvo leikmenn frá þremur mismunandi félagsliðum.
Markvörður: Emiliano Martínez (Aston Villa) - Eini markmaðurinn sem hélt hreinu um helgina. Hann þurfti þó ekki að verja eitt einasta skot þar sem marktilraunir Southampton rötuðu aldrei á rammann.
Hægri bakvörður: Tariq Lamptey (Brighton) - Skoraði glæsilegt mark gegn Leicester en þetta er mjög sérstakur leikmaður. Hann er augljóslega efnilegur en á erfitt með að halda sér heilum.
Miðvörður: Ezri Konsa (Aston Villa) - Steig ekki feilskref í þægilegum sigri. Orðinn lykilmaður í sterku liði Aston Villa.
Miðvörður: Maxence Lacroix (Crystal Palace) - Hefur verið öflugur síðustu vikur og skoraði laglegt skallamark gegn Man City. Hann er augljóslega byrjaður að læra meira inn á enska boltann og gæti reynst mikilvægur eftir áramót.
Vinstri bakvörður: Antonee Robinson (Fulham) - Átti frábæran leik gegn Arsenal þar sem honum tókst að loka mjög vel á Bukayo Saka. Hefur verið að eiga gott tímabil.
Miðjumaður: Will Hughes (Crystal Palace) - Hann sýndi öllum hvers hann er megnugur um helgina þegar hann gaf tvær stoðsendingar gegn Man City. Hann átti frábæran leik gegn Englandsmeisturunum.
Miðjumaður: Enzo Fernandez (Chelsea) - Hefur verið virkilega góður síðustu vikur og var frábær í sigrinum gegn Spurs. Hann var allt í öllu í spili Chelsea, vann skítverkin og skoraði gott mark.
Hægri kantur: Jarrod Bowen (West Ham) - Bowen er fyrirliði West Ham og hefur skilað gríðarlega mikilvægum stigum í haust. Hann gerði það aftur gegn Wolves með marki og stoðsendingu í naumum sigri í neðri hluta deildarinnar.
Sóknartengiliður: Cole Palmer (Chelsea) - Var frábær gegn Tottenham og skoraði úr tveimur vítaspyrnum auk þess að gefa stoðsendingu í mögnuðum endurkomusigri. Gæðin sem Palmer býr yfir eru augljós.
Vinstri kantur: Bryan Mbeumo (Brentford) - Skoraði og lagði upp í frábærum sigri gegn Newcastle eftir að hafa mistekist að skora mark tvo leiki í röð. Mbeumo hefur verið frábær í haust og er eftirsóttur af stórliðum.
Framherji: Jamie Vardy (Leicester) - Elsti leikmaðurinn í liði vikunnar eftir sinn þátt í magnaðri endurkomu Leicester gegn Brighton, sem bjargaði stigi fyrir nýliðana. Vardy átti þar mark og stoðsendingu og hefur verið frábær eftir að Ruud van Nistelrooy tók við liðinu. Vardy verður 38 ára í janúar.
Athugasemdir