Ryan Allsop er markvörður Bournemouth í ensku Championship deildinni. Í fyrrasumar spilaði Allsop með Hetti frá Egilsstöðum í 1. deildinni og var magnaður með liðinu fyrri hluta móts áður en hann fór aftur til Englands.
Á einu ári fór Allsop því úr því að spila í næstefstudeild á Íslandi í að spila í næstefstu deild á Englandi.
Á einu ári fór Allsop því úr því að spila í næstefstudeild á Íslandi í að spila í næstefstu deild á Englandi.
,,Síðasta ár hefur verðið stórkostlegt. Eftir að ég yfirgaf Ísland gekk ég í raðir Leyton Orient þar sem ég var aðalmarkvörður og spilaði 20 leiki," sagði Allsop við Fótbolta.net en hann lék í ensku C-deildinni með Leyton.
,,Eftir sex mánuði hjá Leyton Orient hafnaði ég nýjum samningi og gekk í raðir Bournemouth þar sem ég varð fljótlega aðalmarkvörður og komst upp í Championship deildina með liðinu."
,,Ég er núna búinn að spila tíu leiki í Championship deildinni og ég er alltaf að læra. Ég trúi því ekki hversu mikið líf mitt hefur breyst á síðustu 12 mánuðum, draumurinn hefur náð að rætast."
Allsop spilaði samtals átta leiki með Hetti en hann segir að sá tími hafi gefið sérm ikið.
,,Dvölin á Íslandi hjálpaði ferli mínum mikið. Ég spilaði á Íslandi þegar það var hlé á milli tímabila og þegar ég kom til Englands á reynslu hjá Leyton Orient var ég í góðu formi. Mér gekk vel á reynslu þar sem fjórir aðrir markmenn voru til skoðunar og ég fékk sex mánaða samning sem varamarkvörður Jamie Jones. Jamie meiddist svo ég fékk tækifærið og stóð mig vel."
Ryan segist fylgjast ennþá með sínum gömlu félögum á Egilsstöðum. ,,Já, ég hef fylgst vikulega með úrslitum og ég hef líka haldið sambandi við Kris Byrd leikmann liðsins. Ég hitti líka Ragnar Pétursson í Bournemouth fyrr á árinu þegar hann kom í æfingaferð með nýja félaginu sínu (ÍBV)."
Hjá Bournemouth náði Allsop að slá David James út úr liðinu. James spurði Allsop út í Ísland áður en hann ákvað að ganga í raðir ÍBV fyrr á árinu.
,,Við ræddum um Ísland. Ég sagði honum að ég hefði notið þess að spila með Hetti og búa á Íslandi. Ég var bara þar í átta vikur en ég á frábærar minningar því að allir buðu mig velkominn og hjálpuðu mér að aðlagast því að búa í öðru landi," sagði Allsop að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir



