Færist nær því að yfirgefa Man Utd - Barca ætlar að kaupa Rashford - Newcastle hefur áhuga á Ederson
   lau 12. febrúar 2022 19:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hólmar hugsaði um að fara í næst efstu deild - „Áttum í virku samtali"
Hólmar Örn á landsliðsæfingu.
Hólmar Örn á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmar lék síðast með Rosenborg í Noregi.
Hólmar lék síðast með Rosenborg í Noregi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það kitlaði að fara í uppeldisfélagið.
Það kitlaði að fara í uppeldisfélagið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson skrifaði undir þriggja ára samning við Val í gær.

Fleiri félög, þar á meðal Víkingur og FH, reyndu að fá Hólmar en hann ákvað á endanum að fara til Valsmanna. Hólmar hefur undanfarin ár leikið með Rosenborg í Noregi en fjölskylda hans flutti til Íslands á síðasta ári.

„Ég var einmitt að klára fyrstu æfinguna núna. Það er gaman að koma inn í þetta, byrja að æfa og vinna að okkar markmiðum," sagði Hólmar þegar Elvar Geir Magnússon og Tómas Þór Þórðarson hringdu í hann í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.

Fjölskyldan flutti heim
„Ég tók þessu mjög rólega til að byrja með. Seinasti leikur hjá okkur var 12. desember, en ég var búinn að láta Rosenborg vita fyrir það að ég vildi fara. Það var eitthvað byrjað þá, smá spjall. Ég ákvað að taka mér tíma í þetta og vera 100 prósent viss - hvort ég vildi vera áfram úti eða koma heim og byrja það líf. Ég komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri best að flytja heim. Ég er mjög sáttur með það."

Hólmar er bara 31 árs og á eflaust nóg eftir af ferlinum. Af hverju að flytja heim núna?

„Málið er að fjölskyldan flutti heim frá Noregi í júní. Aðalástæðan fyrir því að ég fór til baka til Rosenborg var sú að sonur minn var nýfæddur og ég vildi vera á einhverjum stað þar sem væri gott að vera með fjölskylduna. Ég fer þá til baka þangað. Þegar þau fara heim, þá fellur þetta um sjálft sig. Rosenborg er frábært félag til að vera hjá, ég er þakklátur fyrir tíma minn þar."

Ræddi við HK
Hólmar valdi á endanum að ganga í raðir Vals, en það voru mörg félög á eftir honum. HK, félag sem hann spilaði áður fyrir á Íslandi, blandaði sér í baráttuna þrátt fyrir að leika í næst efstu deild í sumar.

„Við áttum í virku samtali," sagði Hólmar þegar hann var spurður út í söguna um HK. „Ég kann virkilega að meta þá og karlana í stjórninni sem eru að gera virkilega góða hluti fyrir félagið. Ég viðurkenni að það kitlaði að fara í uppeldisfélagið, og reyna að hjálpa þeim að hækka standardinn á öllu hjá þeim. En þegar ég hugsaði þetta aðeins betur, þá langaði manni að fara strax í toppbaráttu og berjast um alla titla sem eru í boði. En eins og ég segi, þá eru flottir hlutir í gangi hjá HK."

Gott að hafa pressu
Það skapast ávallt mikil umræða um fótboltann á Íslandi þegar sumarið gengur í garð. Hólmar verður eitt stærsta nafn deildarinnar í sumar og verður ákveðin pressa á honum að gera vel. Hann fagnar þeirri pressu.

„Það er pressa alls staðar þar sem þú kemur. Ef það er ekki pressa til staðar, þá býr maður til hana sjálfur. Það er gríðarleg pressa í Rosenborg og maður er því ekki óvanur henni. Ég held að það sé gott bensín sem maður getur notað til að keyra sig áfram," segir varnarmaðurinn öflugi og bætir við:

„Ég er heill en formið gæti verið aðeins betra. Maður er búinn að halda sér við með að æfa hér og þar, taka smá bolta einn. Maður kemst bara ákveðið langt á svoleiðis æfingum. Maður er í ágætis grunnformi og ég ætti ekki að þurfa mjög langan tíma til að komast á gott ról."

Hann segir að markmiðið sé að taka alla titla með Val. Allt viðtalið er hægt að hlusta á í útvarpsþættinum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslensk lið styrkja sig og enski boltinn aftur á fulla ferð
Athugasemdir
banner
banner