Cristiano Ronaldo var hetja Al-Nassr í sádi-arabísku deildinni í dag þar sem hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 endurkomusigri gegn Al-Fayha.
Gestirnir í liði Al-Fayha tóku forystuna á þrettándu mínútu og tókst fertugum Ronaldo að jafna metin fyrir leikhlé eftir stoðsendingu frá Kingsley Coman.
Síðari hálfleikurinn var afar tíðindalítill og virtist stefna í 1-1 jafntefli, þar til heimamenn fengu dæmda vítaspyrnu mjög seint í uppbótartíma. Ronaldo steig á punktinn og gerði dramatískt sigurmark á 104. mínútu.
Al-Nassr er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar eftir sjö umferðir undir stjórn Jorge Jesus. Sadio Mané, Joao Félix, Marcelo Brozovic og Inigo Martínez voru einnig meðal byrjunarliðsmanna.
Al-Taawon er í öðru sæti eftir 2-0 sigur gegn Al-Qadisiya í dag. Frábært gengi Al-Taawon hefur verið að koma á óvart þar sem engar stórstjörnur eru í leikmannahópnum.
Liðið sigraði í dag gegn sterkum andstæðingum sem voru meðal annars með Mateo Retegui, Julian Weigl, Nacho Fernández, Nahitan Nández, Otávio og Koen Casteels í byrjunarliðinu.
Al-Qadisiya er í fjórða sæti eftir tapið, með 14 stig úr 7 umferðum.
Stjörnum prýtt lið Al-Ittihad er einungis komið með 11 stig en liðið spilaði ótrúlegan fótboltaleik í dag.
Al-Ittihad heimsótti Al-Khaleej og lenti afar óvænt fjórum mörkum undir. Fabinho fékk beint rautt spjald og virtist allt vera í ruglinu hjá lærisveinum Sergio Conceicao.
Það var þó ekki raunin vegna þess að tíu leikmenn Al-Ittihad náðu að vinna upp þessa fjögurra marka forystu í vægast sagt ótrúlegum fótboltaleik.
Moussa Diaby skoraði fyrstu tvö mörkin til að koma Al-Ittihad aftur inn í leikinn, áður en Faisal Al-Ghamdi kom inn af bekknum á 87. mínútu og kláraði endurkomuna með marki og stoðsendingu í uppbótartíma.
Lokatölur 4-4 og eru bæði lið með 11 stig eftir 7 umferðir. Houssem Aouar, N'Golo Kanté og Danilo Pereira voru meðal byrjunarliðsmanna hjá Al-Ittihad.
Al-Khaleej eru heldur engir kettlingar að leika sér við en gríski landsliðsmaðurinn Kostas Fortounis skoraði tvö og lagði hin tvö upp í dag.
Joshua King, fyrrum leikmaður Bournemouth, Everton, Watford og Fenerbahce, skoraði líka tvennu fyrir Al-Khaleej.
Al-Nassr 2 - 1 Al-Fayha
0-1 Jason Remeseiro ('13)
1-1 Cristiano Ronaldo ('37)
2-1 Cristiano Ronaldo ('104, víti)
Al-Taawon 2 - 0 Al-Qadsiya
1-0 Waleed Al-Ahmad ('57)
2-0 Angelo Fulgini ('66)
Al-Khaleej 4 - 4 Al-Ittihad
1-0 Joshua King ('14)
2-0 Kostas Fortounis ('18)
3-0 Kostas Fortounis ('37, víti)
4-0 Joshua King ('47)
4-1 Moussa Diaby ('51)
4-2 Moussa Diaby ('86)
4-3 Mario Mitaj ('96)
4-4 Faisal Al-Ghamdi ('98)
Rautt spjald: Fabinho, Al-Ittihad ('32)
Athugasemdir




