Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 13. janúar 2022 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Var í raun betri en þegar hún var valin best - Framlengdi með EM í huga
Ingibjörg í landsleik á árinu.
Ingibjörg í landsleik á árinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Maður vill vera á stað þar sem maður finnur að maður er að bæta sig og þekkir allt vel í kringum sig.
Maður vill vera á stað þar sem maður finnur að maður er að bæta sig og þekkir allt vel í kringum sig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í Meistaradeildinni
Úr leik í Meistaradeildinni
Mynd: Guðmundur Svansson
Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir var á Íslandi í síðustu viku en flaug til Noregs um helgina og er undirbúningur hafinn fyrir komandi átök í norsku deildinni.

Ingibjörg, sem er 24 ára miðvörður og leikmaður Vålerenga, ræddi við Fótbolta.net og fór yfir síðasta tímabil með norska félaginu. Vålerenga varði bikarmeistaratitilinn en gekk ekki jafnvel í deildinni og árið áður, endaði í fjórða sæti eftir að hafa orðið meistari árið 2020. Ingibjörg var eftir tímabilið 2020 valin besti leikmaður í Noregi.

Einhvern hátt samt betra
Það náðist ekki alveg sami árangur og tímabilið á undan. Hvernig sérð þú tímabilið 2021?

„Nei, það er rétt. Þetta var aðeins öðruvísi, á einhvern hátt samt betra en tímabilið 2020 en hvað varðar úrslit þá var það ekki jafn gott. Þetta var upp og niður," sagði Ingibjörg.

„Mér fannst við vera að spila mjög vel í byrjun tímabils, vorum á mjög góður róli bæði í byrjun og í lok tímabils og spiluðum mjög vel saman. Við áttum mjög erfiðan kafla í ágúst og september þar sem voru mjög mikið af leikjum og það gegn erfiðustu liðunum. Við vorum ekki nógu góðar til þess að höndla álagið og klára liðin sem við þurftum virkilega að vinna til þess að vinna titilinn. Við vorum að klára liðin sem við áttum að klára en ekki mikilvægustu leikina."

Þurfti að grafa dýpra því tilfinningin var ekki góð
Hvernig gekk þér persónulega á þessu tímabili?

„Mér fannst ég að mörgu leyti eiga betra tímabil heldur en tímabilið 2020. Mér fannst ég jafnari heilt yfir og fann að ég var búin að bæta mig mikið, samt erfitt að sjá það þegar gengi liðsins var ekkert frábært. Þegar maður lítur á tölfræði og slíkt í kringum þetta þá er ég í rauninni betri en tímabilið 2020 sem er svolítið skrítið þar sem maður vann einhvern veginn allt 2020 og allt gekk vel. Maður þurfti eftir tímabilið núna að grafa aðeins dýpra út af því tilfinningin var ekki það góð eftir tímabilið. Þegar leikirnir eru skoðaðir aftur þá var tímabilið mitt alveg fínt."

Ókláruð verkefni og EM framundan
Þú framlengdir samninginn undir lok síðasta árs, það hefur ekki komið til greina að skipta um lið?

„Jú, ég var alveg að pæla í því og það fór alveg af stað eitthvað ferli í að skoða lið og slíkt. Síðan hafði ég mjög góða tilfinningu fyrir Vålerenga og mikla ástríðu fyrir að vera áfram og hjálpa þeim að komast aftur á toppinn, að gera betur á næsta tímabili."

„Maður horfir líka í að það er EM í sumar og maður vill vera á stað þar sem maður finnur að maður er að bæta sig og þekkir allt vel í kringum sig. Það eru nokkrir þættir sem spila inn í ákvörðunina að vera áfram."

„Mér fannst ég geta gefið meira af mér á þessu tímabili og finnst ég eiga eitthvað óklárað. Samt finnst mér þetta allt vera á réttri leið miðað við hvernig planið var þegar ég skrifaði fyrst undir hjá félaginu. Það kom mjög mikið á óvart að við unnum tvöfalt á fyrsta tímabili. Ég hef mikla trú á félaginu og öllu sem er í gangi þar. Það var helsta ástæðan fyrir því að ég skrifaði aftur undir,"
sagði Ingibjörg.

Þetta er fyrsti hluti af þremur af viðtalinu við Ingibjörgu.
Athugasemdir
banner
banner
banner