Áhugi Liverpool á Musiala eykst - Arsenal og Newcastle hafa áhuga á Sane - Simons orðaður við Man Utd
banner
   mið 14. ágúst 2024 13:43
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Skylda Víkings að vinna og halda uppi heiðrinum í Evrópu
Elvar Geir Magnússon
Úr fyrri viðureign Víkings og Flóru.
Úr fyrri viðureign Víkings og Flóru.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lillekula leikvangurinn í Tallinn, þar sem leikið verður á morgun.
Lillekula leikvangurinn í Tallinn, þar sem leikið verður á morgun.
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Flora Tallinn og Víkingur mætast á morgun í seinni viðureign liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingur stendur eitt íslenskra liða eftir í Evrópukeppni og mun vonandi klára þetta verkefni. Það er hreinlega hægt að setja kröfu á Víkinga að gera það, í tveggja leikja einvígi hreinlega eiga Íslandsmeistararnir að vinna Flóru frá Tallinn ef allt er eðlilegt. Þeir eru mun betra lið.

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings talaði sjálfur um það eftir fyrri leikinn að hinir mótherjar Víkings hingað til í Evrópu; Shamrock Rovers frá Írlandi og Egnatia frá Albaníu, séu betri en þetta eistneska lið.

Yrðu mjög óvænt úrslit ef heimamenn vinna
Eins og allir lesendur vita vel þá eru svakalegir fjármunir í húfi fyrir félagslið að komast langt í Evrópu og Víkingur er í sannkölluðu dauðafæri að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, líkt og Blikum tókst í fyrra. Þrátt fyrir að úrslitin í fyrri leiknum hafi ekki verið að óskum eru Víkingar sigurstranglegri og það endurspeglast vel í stuðlum veðbanka.

Lengjan er með stuðulinn 3,75 á sigur Flóru en 1,69 á útisigur Víkings. Stuðlar sem eru í takt við aðra veðbanka sem ég hef verið að glugga í. Eistneska deildin er mun lægra skrifuð en sú íslenska, hreinlega í ruslflokki, og Flóra með talsvert veikara lið núna en það sem tryggði þeim meistaratitilinn á síðasta ári. Það sést á stöðutöflunni þar sem liðið er í dag nítján stigum frá toppnum í heimalandinu.

Ef Víkingur klárar þennan skyldusigur (orð sem allir þjálfarar hata) þá er framundan einvígi við Santa Coloma frá Andorra um sæti í sjálfri riðlakeppninni. Besti dráttur sem Víkingur gat fengið og sýnir glöggt tækifærið sem Íslandsmeistararnir hafa á því að komast í riðlakeppni. Svona er staðan hjá Víkingi þrátt fyrir að hafa fallið við þá lágu hindrun sem Shamrock Rovers átti að vera í fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Verður Flóra í lágblokk?
„Við þurfum ekki að fara til Eistlands og vera hræddir. Við förum með kassann út. Þetta er alltaf sama gamla sagan. Við þurfum að halda aga og einbeitingu úti. Ein mistök og þú ert úr leik," sagði Arnar Gunnlaugsson í viðtali eftir fyrri leikinn sem endaði með 1-1 jafntefli þrátt fyrir svakalega yfirburði Víkings og fjölda tækifæra.

„Mér fannst fyrir einvígið að ef við ættum tvo toppleiki, þá værum við komnir í gegn. Það er ekki spurning. Ég trúi því ekki að Flora fari aftur í lágblokkina. Mögulega samt, Shamrock gerði það líka. Strákarnir eiga að líta á það sem hrós - hversu langt við erum komnir - að sjá hversu langt lið leggjast niður á móti okkur. Það er okkar að finna lausnir, sama hversu erfitt það er."

Högg fyrir íslenskan fótbolta
Eftir að hafa verið rétt við botninn þá hefur Ísland verið á uppleið á styrkleikalistanum hjá UEFA með betri úrslitum okkar félagsliða. En gengið hefur verið vonbrigði þetta sumarið, hingað til allavega.

Tap Stjörnunnar gegn Paide 4-0 var hreinlega niðurlægjandi og Breiðablik klúðraði sínu verkefni rækilega með því að falla út gegn Drita frá Kósovó, þar sem heimaleikurinn varð liðinu að falli. Við megum ekki við frekara bakslagi.

Víkingur mun þó vonandi halda áfram að safna stigum fyrir íslenskan fótbolta. Liðið hefur verið byggt upp til að komast í riðlakeppni Evrópu og á að ná því markmiði í ár. Áfram Víkingur!
Athugasemdir
banner
banner
banner