Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 14. september 2021 10:28
Elvar Geir Magnússon
Arnar Viðars talaði um storminn í íslenskum fótbolta í belgískum sjónvarpsþætti
Arnar Þór Viðarsson í belgíska sjónvarpsþættinum.
Arnar Þór Viðarsson í belgíska sjónvarpsþættinum.
Mynd: Skjáskot
Arnar segir að þetta hafi verið hans erfiðustu vikur á ferlinum.
Arnar segir að þetta hafi verið hans erfiðustu vikur á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, fór í viðtal í belgískum sjónvarpsþætti þar sem hann talaði um krísuna í íslenskum fótbolta eftir að landsliðsmenn voru sakaðir um kynferðisofbeldi.

Arnar, sem er búsettur í Belgíu, segir að liðinn landsleikjagluggi hafi verið erfiðustu vikur á ferli hans og hann sé þreyttur. Úrslitin innan vallarins hafi verið aukaatriði í öllu því sem gekk á.

Stjórn KSÍ sagði af sér eftir að hún var sökuð um að hylma yfir ofbeldisbrot. Arnar var spurður að því í þættinum hvort hann hafi verið einn skilinn eftir við stjórnvölinn?

„Já. Ég þurfti nánast að spila leikina sjálfur því margir leikmenn voru ekki til staðar. Þegar ég tók við í desember var ég með draumalið á blaði en nú er staðan breytt," segir Arnar. Einhverjir leikmenn hafi verið meiddir og aðrir ekki spilað út af ásökunum.

Hann segir möguleika á því að nokkrir af reyndustu leikmönnum hópsins hafi spilað sína síðustu landsleiki. Menn hugsi sína stöðu þegar þeir leikmenn sem hafa spilað með þeim í kringum 80 landsleiki séu skyndilega ekki lengur til staðar.

Gylfi Þór Sigurðsson er meðal leikmanna sem eru ekki til staðar en hans mál er í rannsókn á Englandi.

„Ég get ekki tjáð mig um það mál. En sem þjálfari þá sakna ég þess að hafa mína Kevin De Bruyne og Eden Hazard í íslenska liðinu. Frá draumaliðinu sem ég var með á blaði eru bara tveir eftir."

Arnar talar um að hann hafi staðið einn á báti eftir að stjórnin sagði af sér. Hann hafi skyndilega verið kominn í þá stöðu að þurfa að svara fyrir málin.

„Ég skil gagnrýnina en ég hef ekki svörin. Formaðurinn er farinn, stjórnin er farin.... ég ráðlegg mig við yfirmann fótboltamála. Og sá maður er ég sjálfur. Þetta hefur verið stormur og ég var í honum miðjum. Ég þurfti skyndilega að svara fjölmiðlum en ég gat eki gefið svörin. Á sama tíma þurfti ég að undirbúa leiki," segir Arnar.

Leikmannahópurinn hafi yngst, hann hafi þurft að velja yngri leikmenn í hópinn en einnig að vernda þá. Í því samhengi nefnir hann að kallað hafi verið 'nauðgarar, nauðgarar' á leikmennina þegar þeir voru í göngutúr.

„Skyndilega eru hetjurnar fyrir nokkrum árum dæmdar sem hræðilegt fólk. Ég fékk líka mína gagnrýni. Ég skil fólkið sem lætur í sér heyra en ég er ekki sá sem er með svörin," segir Arnar í þættinum.
Athugasemdir
banner
banner