Tíundi sigurinn í röð
Aston Villa 2 - 1 Man Utd
1-0 Morgan Rogers ('45)
1-1 Matheus Cunha ('45+3)
2-1 Morgan Rogers ('58)
1-0 Morgan Rogers ('45)
1-1 Matheus Cunha ('45+3)
2-1 Morgan Rogers ('58)
Aston Villa tók á móti Manchester United í gríðarlega spennandi slag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðin áttust við í eina leik dagsins og úr varð mikil skemmtun.
Bæði lið fengu góð færi í fyrri hálfleik án þess að skora áður en Morgan Rogers tók forystuna með mögnuðu einstaklingsframlagi skömmu fyrir leikhlé. Rogers forðaði boltanum frá því að fara útfyrir hliðarlínuna og gerði mjög vel að snúa inn á völlinn og klára með mögnuðu skoti í fjærhornið.
Rauðu djöflarnir voru fljótir að svara fyrir sig því Matheus Cunha jafnaði í uppbótartíma eftir mikinn vandræðagang í vörn Villa. Matty Cash virkaði kærulaus þegar hann missti boltann á hættulegum stað eftir góða pressu frá Patrick Dorgu. Boltinn rataði til Cunha sem gerði vel að klára framhjá Emiliano Martínez.
Það ríkti jafnræði með liðunum bæði fyrir og eftir leikhlé en Rogers gerði gæfumuninn með gæðunum sínum. Á 58. mínútu tók hann forystuna fyrir heimamenn á nýjan leik eftir að boltinn datt fyrir hann innan vítateigs. Rogers var með mikið af andstæðingum í kringum sig en tókst að skora með laglegu skoti í fjærhornið.
United reyndi að jafna metin á lokakafla leiksins en tókst ekki að koma boltanum í netið gegn skipulagðri vörn Aston Villa. Lokatölur urðu því 2-1.
Aston Villa er í þriðja sæti úrvaldeildarinnar með 36 stig eftir 17 umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.
Man Utd er í sjöunda sæti með 26 stig.
Þetta var tíundi sigur Aston Villa í röð í öllum keppnum.
Athugasemdir



