David Moyes var ánægður með frammistöðu lærisveina sinna í Everton sem töpuðu naumlega á heimavelli gegn toppliði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Everton skapaði ekki mikið af færum en leikmenn liðsins vildu nokkrum sinnum fá vítaspyrnu dæmda, sem þeir fengu ekki. Arsenal skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
„Ég hljóma kannski eins og rispuð plata en þetta er aftur sama sagan. Við erum að gera mikið rétt en við erum ekki að skora mörk, það er það sem vantar í okkar leik. Það sem skiptir máli í fótbolta er að sigra og okkur er að mistakast það," sagði Moyes eftir lokaflautið, en Everton er um miðja deild með 24 stig eftir 17 umferðir.
„Strákarnir stóðu sig frábærlega í kvöld en það vantaði aðeins meiri gæði í sóknarleikinn. Arsenal gaf mjög fá færi á sér og við náðum ekki að skapa okkur nóg til að skora, en við gerðum þeim erfitt fyrir. Þetta var ekki auðvelt fyrir þá.
„Þetta var þægilegt fyrir okkur þangað til þeir fengu vítaspyrnuna. Mér fannst við vera sterkara liðið á vellinum fram að því. Í seinni hálfleik reyndum við að sækja meira og þá opnuðumst við líka varnarlega. Ég verð að hrósa strákunum fyrir frammistöðuna, við vorum með í leiknum allan tímann."
Gyökeres skoraði af vítapunktinum eftir að Jake O'Brien fékk dæmda hendi á sig innan vítateigs á afar klaufalegan hátt, þar sem hann stökk upp í skallabolta með báðar hendur í ónáttúrulegri stöðu fyrir ofan höfuð.
„Hann ætti að sjá eftir þessu útaf því að allir fótboltamenn í dag vita að það er stórhættulegt að setja hendurnar uppfyrir haus á þennan máta. Ég skil ekki til hvers hann gerði þetta, af hverju var hann að setja handleggina upp?"
Moyes var ekki sáttur með dómgæsluna í leiknum þar sem hann taldi Sam Barrott flauta alltof mikið. Hann vildi líka fá vítaspyrnu en neitaði að tjá sig mikið um dómgæsluna.
„Ég get ekki endurtekið það sem fór á milli mín og dómarans að leikslokum án þess að vera sektaður, þið verðið að finna leið fyrir mig til að svara þessum spurningum heiðarlega eða hætta að spyrja mig. Útskýringin frá dómarateyminu er sú að það var ekki nægilega mikil snerting til að dæma vítaspyrnu, en svo var dæmt í hvert skipti sem leikmenn Arsenal duttu í jörðina.
„Ákvarðanirnar féllu ekki með okkur í kvöld."
Athugasemdir


