Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði spurningum eftir nauman sigur gegn níu leikmönnum Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Hollendingurinn er ánægður með að hafa náð í þrjú stig á erfiðum útivelli.
Tottenham missti Xavi Simons af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik en leikurinn var nokkuð jafn þrátt fyrir liðsmuninn. Liverpool komst í tveggja marka forystu og minnkaði Richarlison muninn niður í eitt mark eftir að hafa komið inn af bekknum.
Cristian Romero fyrirliði Tottenham lét svo reka sig af velli í uppbótartíma en Alisson Becker markvörður Liverpool þurfti að hafa fyrir því að tryggja sigurinn. Níu leikmenn Tottenham ógnuðu marki gestanna en tókst ekki að jafna, svo lokatölur urðu 1-2.
„Auðvitað töpuðu Tottenham í síðustu viku þannig að þeir mættu grimmir til leiks í dag staðráðnir í að bæta upp fyrir það. Það er mjög gott að koma hingað og ná í þrjú stig, þetta er virkilega erfiður völlur heim að sækja. Markmiðið okkar var að sigra þennan leik til að bæta stöðuna í deildinni og við gerðum það," sagði Slot. Það var mikill uppbótartími á Tottenham Hotspur Stadium og voru heimamenn sterkari aðilinn þrátt fyrir að vera tveimur mönnum færri.
„Við spiluðum gegn níu leikmönnum í níu mínútur og ég hefði búist við að við myndum halda boltanum í átta og hálfa mínútu af þessum níu, en það gerðum við ekki. Það segir okkur ýmislegt um hvaða stað við erum á. Við þurfum að sigra nokkra leiki í viðbót til að líða vel og takast betur á við bakslög. Við vorum lélegir síðustu tíu mínúturnar en það má ekki gleymast að við gerðum margt mjög vel hinar 80-90 mínútur leiksins."
Alexander Isak byrjaði á bekknum en fékk að koma inn í hálfleik fyrir Conor Bradley sem fór meiddur af velli. Isak skoraði fyrsta mark leiksins en meiddist um leið. Jeremie Frimpong kom inn í hans stað en meiddist svo sjálfur undir lok leiksins.
„Við verðum að bíða og sjá með þessi meiðsli, við getum ekki sagt til um hversu alvarleg þau eru fyrr en á næstu dögum. Það jákvæða er að það er heil vika í næsta leik."
Liverpool er í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar sem stendur með 29 stig eftir 17 umferðir. Englandsmeistararnir taka á móti botnliði Wolves næstu helgi.
Athugasemdir




