Kobbie Mainoo, Antoine Semenyo, Brennan Johnson, Marcus Rashford og fleiri koma við sögu
banner
   lau 20. desember 2025 23:51
Ívan Guðjón Baldursson
Glasner: Mættum með kolrangt hugarfar
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Oliver Glasner þjálfari Crystal Palace var mjög vonsvikinn eftir stórt tap gegn Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Lærlingar hans í liði Palace sköpuðu lítið sem ekkert í leiknum og töpuðu 4-1 þar sem Justin Devenny skoraði úr vítaspyrnu í uppbótartíma og átti svo skalla í stöng skömmu síðar.

„Þetta var mjög léleg frammistaða í dag. Við gátum ekki varist föstum leikatriðum og þetta var í raun bara vandræðalegt. Þetta er fyrsti leikurinn á tímabilinu sem við áttum virkilega skilið að tapa, við vorum hörmulegir," sagði Glasner.

„Eftir þrjá daga fáum við tækifæri til að verjast föstum leikatriðum betur þegar við kíkjum á Emirates, þar mætum við andstæðingum sem eru mögulega þeir bestu í að skora úr föstum leikatriðum."

Glasner hélt áfram að tala um slæma frammistöðu sinna manna.

„Þeir spiluðu maður á mann og við töpuðum hverju einasta einvígi. Þeir unnu öll einvígin. Það er algjört undirstöðuatriði í fótbolta að vinna einvígin sín. Við getum heldur ekki skrifað þetta á alltof mikið leikjaálag. Við verðum bara að vera betri.

„Þeir sköpuðu sér nánast ekkert færi úr opnum leik en þeir voru stórhættulegir úr hverju einasta fasta leikatriði.

„Ég held að við höfum mætt í leikinn með rangt hugarfar. Kannski einblíndi ég of mikið á taktíkina fyrir leikinn, hvernig við eigum að spila gegn 3-5-2 leikkerfi, og talaði ekki nóg um undirstöðuatriðin. Við töpuðum öllum einvígum og öllum seinni boltum. Undirstöðuatriðin koma fyrst og svo kemur taktíkin, ef þú ert ekki með þessi grunnatriði á hreinu þá skiptir leikskipulagið í raun engu máli.

„Við eigum allir að vera vonsviknir eftir þetta tap, ég og allir leikmennirnir. Við verðum að finna svör og gera betur næst."

Athugasemdir
banner