Kobbie Mainoo, Antoine Semenyo, Brennan Johnson, Marcus Rashford og fleiri koma við sögu
   lau 20. desember 2025 21:04
Ívan Guðjón Baldursson
Pep: Það eina sem lætur mig vilja vera áfram
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Josep 'Pep' Guardiola þjálfari Manchester City þakkaði Erling Haaland fyrir mörkin sín eftir þægilegan sigur á heimavelli gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Man City fór upp á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigrinum en getur misst það aftur til Arsenal ef lærlingum Mikel Arteta tekst að leggja Everton að velli.

Haaland skoraði tvö og lagði eitt upp í 3-0 sigri gegn Hömrunum.

„Við gerðum margt mjög vel í þessum leik og ég vil þakka Erling fyrir mörkin. Við erum að verða betri varnarlega en við vorum ekki nægilega góðir með boltann. Ég er ánægður með sigurinn en við verðum að bæta okkur með boltann ef við viljum vera samkeppnishæfir í titilbaráttunni í mars og apríl," sagði Guardiola eftir sigurinn og grínaðist hann í fréttamönnum þegar hann var spurður enn eina ferðina út í framtíð sína. Hann er samningsbundinn City til sumarsins 2027 en hefur verið sterklega orðaður við brottför frá félaginu næsta sumar, einu ári fyrir samningslok.

„Þetta er það eina sem lætur mig vilja vera áfram í þessu starfi, að sitja hérna fyrir framan svona fallega áheyrendur og tala um hvað mér fannst um leikinn. Það var margt mjög gott við leikinn en ég sagði við strákana eftir leik: 'Gleðileg jól allir saman, en þau eru ekki nóg ef við bætum ekki okkar leik'."

Pep var ánægður með varnarleikinn í fyrri hálfleik en ekki alveg jafn sáttur með seinni hálfleikinn þar sem Gianluigi Donnarumma þurfti að taka á honum stóra sínum til að halda markinu hreinu.

„Hversu mörg færi fengu þeir í fyrri hálfleik? Núll, ekki neitt. Þrátt fyrir það vorum við ekki nægilega góðir á boltanum, við sköpuðum ekki nóg. Í seinni hálfleik bjargaði Gigi okkur því við vorum ekki rétt staðsettir. Þetta var svipað og gegn Leeds þegar þeir komu til baka og jöfnuðu okkur.

„Ég er ekki galdramaður sem getur sér framtíðina en treystið mér, lið munu skora gegn okkur. Við erum ekki rétt staðsettir."


En verður Man City með í titilbaráttunni eftir áramót?

„Ef strákarnir fylgja mér þá verðum við þar, en við verðum að bæta okkur sem lið. Gæðin í þessari deild eru rosaleg, Arsenal er með svakalegt lið. Ég veit hversu erfiðir andstæðingar þeir eru. Þetta sem við erum að gera er ekki nóg, við verðum að gera betur. Það er margt við okkar leik sem við erum að vinna í að bæta.

„Metnaðurinn og liðsandinn eru til staðar. Það er mikilvægt."

Athugasemdir
banner
banner