Stjórnendur Manchester City eru ekki ánægðir með hversu lítinn spiltíma Claudio Echeverri hefur fengið á lánsdvölinni sinni hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi.
Lánssamningur táningsins átti að gilda út tímabilið en Man City náði samkomulagi við þýska félagið um að enda lánstímabilið fyrr. Echeverri snýr því aftur til City í janúar og verður að öllum líkindum lánaður út til nýs félags.
Fabrizio Romano er meðal fréttamanna sem greina frá þessu og segir hann að Girona á Spáni og River Plate í Argentínu séu mjög áhugasöm um að fá Echeverri í sínar raðir.
Echeverri er 19 ára sóknartengiliður sem City keypti úr röðum River Plate í janúar 2024. Táningurinn lék með River í eitt ár í viðbót og flutti til Manchester í janúar 2025.
Hann kom við sögu í þremur leikjum með City og skoraði eitt mark áður en hann var lánaður til Leverkusen síðasta sumar. Hann hefur aðeins þrisvar sinnum verið í byrjunarliði Leverkusen í haust og fengið að koma við sögu í ellefu leikjum í heildina.
Athugasemdir





