Ruben Amorim var svekktur eftir 2-1 tap Manchester United gegn Aston Villa í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Morgan Rogers skoraði bæði mörk Aston Villa með frábærum skotum, það fyrra eftir magnað einstaklingsframtak. Rauðu djöflarnir fengu tækifæri til að skora fleiri mörk en nýttu þau ekki.
Amorim er ánægður með frammistöðu liðsins og telur sína menn hafa verðskuldað að sigra leikinn eða í það minnsta gera jafntefli.
„Við spiluðum mjög vel og stjórnuðum leiknum. Við sköpuðum góð færi en tvö einstaklingsframtök frá sama leikmanni réðu úrslitum. Við vorum mjög góðir í pressunni, við spiluðum hátt uppi á vellinum og gerðum vel maður á mann. Mér fannst betra liðið tapa leiknum í dag," sagði Amorim eftir lokaflautið.
„Við komumst í svo mikið af góðum stöðum sóknarlega en nýttum þær ekki. Þetta var mjög svipað og í síðustu umferð (4-4 jafntefli gegn Bournemouth) nema að þá sköpuðum við betri færi úr stöðunum. Við vörðumst mjög vel í dag gegn sterkum andstæðingum, yfir heildina litið var þetta góð frammistaða en það skiptir ekki máli útaf því að við töpuðum leiknum."
Bruno Fernandes fyrirliði meiddist undir lok fyrri hálfleiks og þurfti að fara af velli. Hann er búinn að bætast við lista leikmanna Man Utd sem eru fjarverandi af ýmsum ástæðum. Nokkrir eru meiddir og aðrir eru ýmist í leikbanni eða á Afríkumótinu. Amorim nýtti sér þá krafta Jack Fletcher og Shea Lacey sem eru aðeins 18 ára gamlir og fengu að koma inn af bekknum.
„Við vorum óheppnir. Bruno meiddist en við vorum betra liðið bæði með hann á vellinum og án hans. Við stóðum okkur mjög vel en það skiptir ekki máli á morgun útaf því að það eru stigin sem telja. Ég held að Bruno verði ekki með í næstu leikjum en við vitum ekkert með vissu strax, við verðum að bíða og sjá.
„Við lentum í meiðslavandræðum á sama tímapunkti í fyrra svo við vitum að þetta er ekki að fara að drepa okkur, heldur verðum við sterkari fyrir vikið. Krakkarnir stóðu sig vel í dag, við verðum að vinna með það sem við höfum. Við ætlum að vinna næsta leik, það eru engar afsakanir."
Athugasemdir




