Fannar Karvel skrifar frá Englandi:
Íslenska U15 landsliðið tapaði 11-0 gegn Spáni í lokaleik sínum á þróunarmóti UEFA á Englandi.
Strákarnir okkar mættu í dag sennilega tæknilega besta liði mótsins, það virtist á köflum einsog Spánn væri að spila aðra íþrótt en okkar strákar, slík var tæknileg geta þeirra.
Ísland byrjaði á að liggja djúpt og komst varla yfir miðlínu í fyrri hálfleik sem endaði 7-0 fyrir Spánverjana.
Strákarnir sýndu þeim spænsku alltof mikla virðingu, leyfðu þeim að klappa boltanum mikið og komast í stöður án þess að láta þá hafa fyrir því.
Þreföld skipting var gerð í hálfleik og eftir það kom upp smá Íslenskur víkingur í strákana okkar sem ýttu þeim Spænsku aftar á völlinn og létu þá finna fyrir sér. Spánverjarnir á móti beittu fólskulegum tæklingum og olnbogaskotum til að berja frá sér. Áfram var spænska liðið öskufljótt og beitt í sínum aðgerðum sem skilaði 4 mörkum í seinni hálfleik sem öll voru tekin úr efstu hillu gæðanna, skot utan af velli sem sleiktu stangirnar.
Spánverjar fengu víti eftir vafasama dómgæslu um miðjan seinni hálfleik en Steindór Orri gerði sér lítið fyrir og varði skot Mikel Anderes leikmanns Real Madrid.
Einn leikmaður Íslands tók ekki þátt í dag, Ólafur Eldur, en hann meiddist á ökkla á æfingu í gær.
Spánverjarnir voru allir mun sterkari og flestir stærri og er greinilegt að Íslensk félög og KSÍ þurfa að taka styrktarþjálfun yngri flokka mjög föstum tökum því öll liðin á mótinu hafa átt það sameiginlegt að vera sterkari en það Íslenska.
Getulega séð erum við á eftir þeim þjóðum sem spilað var við á þessu móti enda allar með tölu í hópi þeirra bestu í heimi og fyrirséð að litla Ísland myndi eiga í erfiðleikum. Jákvæðni hatturinn segir manni hinsvegar að núna vita þessir strákar hvernig er að eiga við þá bestu í heiminum og mæta á klakann fullir af reynslu og geta bitið enn meira frá sér með félagsliðum sínum og næsta landsliðsverkefni.
Athugasemdir




