Það fóru sjö leikir fram í franska bikarnum fyrr í kvöld þar sem helst er að frétta að Brest féll úr leik gegn D-deildarliði.
Brest missti mann af velli með rautt spjald snemma leiks og var leikurinn nokkuð jafn eftir það. Heimamenn í Avranches fengu hættulegri færi og tóku forystuna en gestirnir jöfnuðu svo lokatölur urðu 1-1.
Því var gripið til vítaspyrnukeppni og þar klúðraði Romain Del Castillo fyrstu spyrnunni fyrir Brest. Eftir það var skorað úr hverri einustu spyrnu svo heimamenn í Avranches unnu sögulegan sigur.
Brest var lítið þekkt félag utan Frakklands þar til á síðustu leiktíð þegar liðið náði frábærum úrslitum í deildarkeppni Meistaradeildarinnar áður en það var slegið úr leik af samlöndum sínum í stórveldi PSG.
Í öðrum leikjum kvöldsins komust Montpellier, Reims, Angers, Le Mans, Lens og Laval áfram í næstu umferð.
Athugasemdir




