Kobbie Mainoo, Antoine Semenyo, Brennan Johnson, Marcus Rashford og fleiri koma við sögu
banner
   lau 20. desember 2025 22:58
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Mikilvægt að njóta þess að sigra
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arsenal vann nauman sigur á Everton í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni þar sem Viktor Gyökeres gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

Arsenal fékk ekki mikið af færum en gaf heldur ekki mörg færi á sér í nokkuð tíðindalitlum leik. Arteta er mjög ánægður með sigur á erfiðum útivelli.

„Þetta er virkilega erfiður útivöllur og ég er mjög ánægður með sigurinn. Ég vil líka nýta þetta tækifæri til að hrósa þeim fyrir fallegan leikvang, ég fékk hroll þegar við mættum á svæðið," sagði hann eftir lokaflautið.

„Við vorum sterkara liðið en sköpuðum ekki mikið í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fengum við þrjú tækifæri til að skora sem við nýttum ekki. Við verðum að gera betur í að nýta færin okkar, það er mikilvægt í þessari deild."

Það kom einhverjum á óvart þegar Viktor Gyökeres steig á vítapunktinn í stað Bukayo Saka eða Martin Ödegaard og er Arteta ánægður að leikmenn hafi ákveðið sín á milli hver myndi taka spyrnuna.

„Þetta er mjög naumur sigur eins og í síðustu umferð, þetta er mjög erfið deild þar sem hver einasti andstæðingur getur skapað vandræði fyrir mann."

Arsenal endurheimti toppsæti úrvalsdeildarinnar með þessum sigri eftir að Manchester City hafði tekið toppsætið fyrr í dag.

„Ég veit að þið skoðið þetta mikið en við erum ekkert að spá í hvað önnur lið gera. Okkar eigin frammistaða er það eina sem við höfum stjórn á. Við getum bara haft áhrif á okkar leiki og við þurfum ekki að hugsa um hvað önnur félög eru að gera.

„Það er mikilvægt að njóta þess að sigra, við leggjum mikið upp úr því. Við gerum okkar besta allt tímabilið og í lokin þá sjáum við hvar við stöndum."


Arsenal er með 39 stig eftir 17 umferðir, tveimur stigum meira heldur en Man City.
Athugasemdir
banner