Morgan Rogers var hetjan er Aston Villa sigraði gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Rogers skoraði tvö lagleg mörk, sérstaklega það fyrra sem hann gerði eftir magnað einstaklingsframtak.
Hann er ánægður með sigurinn en telur Aston Villa hafa verið langt frá sínu besta í dag.
„Þetta var erfiður leikur gegn sterkum andstæðingum, þeir hafa verið að gera flotta hluti og sérstaklega á útivelli. Við vorum langt frá okkar besta en fundum leið til að sigra, það skiptir öllu máli. Það skiptir okkur miklu máli að vinna á heimavelli fyrir framan stuðningsfólkið okkar," sagði Rogers að leikslokum, en Aston Villa er komið með tíu sigra í röð í öllum keppnum.
„Við erum að gera magnaða hluti og erum fullir sjálfstrausts. Við mætum í hvern einasta leik til að vinna hann og tilfinningin er frábær. Sjálfstraustið skiptir svo miklu máli í þessari íþrótt."
Villa byrjaði tímabilið ekki vel. Lærlingar Unai Emery voru sigurlausir fyrstu fimm deildarleikina en fundu svo taktinn.
„Við héldum áfram að gera okkar hluti og úrslitin fóru í lag. Við breyttum engu, við lögðum bara meira á okkur og pússuðum aðeins upp á smáatriðin. Liðsheildin hérna er mjög góð og það sést."
Athugasemdir


