„Ég man eftir mér mjög ungum að horfa á pabba spila í ensku úrvalsdeildinni, fór á alla heima- og útileiki að horfa á hann. Þá fékk ég hvatninguna. Það er fótbolti í fjölskyldunni og ég ætlaði mér alltaf að verða fótboltamaður og frá því að ég varð 12-13 ára vann ég markvisst að því," segir Ísak Bergmann Jóhannesson sem er 22 ára miðjumaður sem spilar með Köln í þýsku úrvalsdeildinni.
Hann ræddi við Fótbolta.net á veitingastað nálægt heimili hans í Köln. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum efst.
Á morgun fer fram lokaleikur Köln fyrir jólafrí þegar Union Berlin kemur í heimsókn á Rheinenergiestadion, heimavöll Kölnar.
Faðir Ísaks er Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta og móðir hans, Jófríður María Guðlaugsdóttir, lék á sínum tíma með ÍA. Bræður Jóhannesar voru líka atvinnu- og landsliðsmenn í fótbolta og afi hans, Guðjón Þórðarson, vann marga titla sem leikmaður og þjálfari, stýrði landsliðinu og gerði flotta hluti á Englandi.
Það er því heldur betur fótbolti í fjölskyldunni og líf Ísaks snýst um fótbolta, það er aðal og eiginlega eina áhugamálið. Í frítímanum spilar Ísak Football Manager og fylgist með því sem er að gerast í fótboltaheiminum.
Hann ræddi við Fótbolta.net á veitingastað nálægt heimili hans í Köln. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum efst.
Á morgun fer fram lokaleikur Köln fyrir jólafrí þegar Union Berlin kemur í heimsókn á Rheinenergiestadion, heimavöll Kölnar.
Faðir Ísaks er Jóhannes Karl Guðjónsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta og móðir hans, Jófríður María Guðlaugsdóttir, lék á sínum tíma með ÍA. Bræður Jóhannesar voru líka atvinnu- og landsliðsmenn í fótbolta og afi hans, Guðjón Þórðarson, vann marga titla sem leikmaður og þjálfari, stýrði landsliðinu og gerði flotta hluti á Englandi.
Það er því heldur betur fótbolti í fjölskyldunni og líf Ísaks snýst um fótbolta, það er aðal og eiginlega eina áhugamálið. Í frítímanum spilar Ísak Football Manager og fylgist með því sem er að gerast í fótboltaheiminum.
Fótboltaóður
„Ef ég væri ekki fótboltamaður þá væri ég pottþétt í einhverju tengdu fótbolta, ég er fótboltasjúkur og ég væri sennilega búinn að mennta mig í þjálfun eða einhverju svoleiðis. Fótbolti er allt fyrir mér, frá því að ég var 3-4 ára hefur það bara verið fótbolti," segir Ísak sem byrjaði að æfa með ÍA þegar hann var níu ára gamall. Áður hafði hann verið hjá Bolton og Manchester City. Hann sér fyrir sér að starfa hjá uppeldisfélaginu, ÍA, einhvern tímann í framtíðinni.
Mjög sáttur, en stefnir alltaf hærra
Ertu að upplifa drauminn með því að spila í þýsku Bundesliga?
„Ég man eftir mér mjög ungum að horfa á það helsta úr leikjum í Bundesligunni heima í tölvunni. Ég man sérstaklega eftir því að hafa horft á Köln þegar Anthony Modeste var að spila með liðinu. Enska úrvalsdeildin er efst finnst mér, svo kemur Bundesligan, sérstaklega með vellina og stuðningsmennina, það er alltaf fullt. Bundesligan er líka stór draumur hjá mér."
„Ég er mjög sáttur, en stefni alltaf hærra. Ég er sáttur með hvernig þetta hefur þróast, sérstaklega eftir bakslagið í Köben þar sem ég fékk ekki að spila mína stöðu, náði að koma mér áfram og er stoltur af því að vera kominn í Bundesliguna núna og er búinn að standa mig fínt, er búinn að aðlagast tempóinu og finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég er að spila hverja einustu helgi á geggjuðum völlum og er að njóta þess í botn."
Stuðningsmenn hita upp daginn fyrir nágrannaslaginn
Þótt furðulegt megi virðast þá fær Ísak meiri tíma á boltanum í efstu deild Þýskalands heldur en þeirri næstefstu, efsta deildin er taktískari.
Hann var keyptur til Kölnar í sumar frá grönnunum í Düsseldorf, eitthvað sem stuðningsmenn Düsseldorf voru alls ekki sáttir með en Ísak vildi spila í deild ofar. Hann er ekki mikið að láta sjá sig í gamla heimabænum, ekki nema þegar hann laumar sér þangað, hettuklæddur, í klippingu.
Er skrítið að vera að spila fyrir félag sem er rétt hjá gamla félaginu?
„Já og nei. Maður er einhvern veginn ekkert að spá mikið í því af því liðin eru í sitthvorri deildinni, en auðvitað er þetta skrítið af því það er rígur þarna á milli. Í Düsseldorf þá var mikið talað um Köln, en í Köln er meira talað um Gladbach, þar er mesti rígurinn."
„Daginn fyrir leiki gegn Gladbach koma harðkjarna stuðningsmenn á æfingu hjá okkur, þannig maður getur ekkert misst af því hvenær leikirnir gegn Gladbach eru. Þeir eru fyrir aftan annað markið á æfingunni daginn fyrir leik og syngja, það er mjög skemmtilegt. Þetta gerist bara fyrir leiki gegn Gladbach, rígurinn nær langt til baka, þetta voru tvö stærstu liðin á sínum tíma."
Fær gott jólafrí
Færðu einhvern tímann smá ógeð af fótbolta?
„Nei, ekki ógeð, en núna er að koma frí og ég hlakka til að fara heim að slappa af. Maður er alltaf að fylgjast með öllu og spá í fótbolta. Nei, mér finnst mjög fínt að hafa bara áhuga á fótbolta, það er auðvitað fjölskyldan líka og vinir, en ég þarf ekki meira í mínu lífi."
Eftir leikinn tekur við jólafrí á Íslandi, Ísak verður í tvær vikur á Akranesi. „Það er ekki sjálfgefið að fá jólafrí, það er ekkert svoleiðis á Englandi eða á Ítalíu, geðveikt að geta farið heim. Ég er mjög sáttur að geta kíkt heim og aðeins slappað af."
Kærastan stillir upp heimilinu
Hann spáir ekki mikið í tísku, merkjavörum og slíku, einbeitingin er á fótbolta. Hann er á samningi hjá Nike og klæðist fatnaði frá þeim og keyrir um á Ford bifreið, en Ford er styrktaraðili félagsins.
Ísak býr í Köln með kærustu sinni, Agnesi Perlu Sigurðardóttur. Hún sér um að velja húsgögn í íbúðina.
„Hún sér um íbúðina, hefur gert mjög flott með íbúðirnar okkar, fyrst í Köben, svo Düsseldorf og núna hér í Köln. Hún spáir mikið í arkitektúr og ég leyfi henni alveg að sjá um það."
Skilur allt sem sagt er á þýsku
Ísak elskar að búa í Þýskalandi, kominn inn í kúltúrinn og hann er alveg kominn með tungumálið á lás. Staðsetningin skemmir svo ekki fyrir.
„Það er stutt að fara t.d. til Hákonar í Lille, kíkti á leik hjá honum um daginn, fór líka til Andra Lucasar í Gent og kíki á Christos Tzolis vin minn í Club Brugge - stutt að fara í allt. Deildin í Þýskalandi er geggjuð, vellirnir geggjaðir. Ég er búinn að vera hér í tvö og hálft ár og tala þýskuna og skil hana mjög vel. Ég er stundum í basli með að tala, en ég skil allt, það er mikilvægast finnst mér. Það er mikilvægt að skilja t.d. hvað þjálfarinn er að segja á fundum og svoleiðis."
Mjög gott skref
Ísak er mjög ánægður með tímabilið til þessa.
„Ég er mjög ánægður með þetta skref, held að fólk hafi séð að þetta var mjög gott skref, sérstaklega ef horft er í þann stað sem Düsseldorf er á núna, þeir eru í fallbaráttu í 2. Bundesliga."
„Við byrjuðum mjög vel og erum núna um miðja deild í Bundesligunni. Ég ætla að halda áfram að þróa minn leik og bæta mig hér hjá Köln, Mig langar mjög að verða rótgróinn leikmaður í deildinni, spila marga leiki hér og reyna bæta mig á hverjum einasta degi."
Ekki góður safi, en hjálpar til
Eins og fyrr segir er leikur gegn Union á morgun. Ísak raðar deginum aðeins öðruvísi upp eftir því hvort hann sé að fara byrja leikinn eða ekki, en það er aðallega hvenær hann borðar.
„Ég reyni að hafa alltaf sömu rútínu, ég fæ mér alltaf rauðrófusafa, það hjálpar með hlaupin og ég þarf að hlaupa mjög mikið á miðjunni. Þegar maður er á bekknum þá borðar maður þegar aðeins styttra er í leikinn, það er aðalmunurinn."
„Mér finnst rauðrófusafinn ekki góður, alltaf jafn vondur, ég drekk hann af því það hjálpar mér, þetta hjálpar manni sérstaklega eftir svona 70. mínútu í leikjum, maður getur hlaupið ennþá meira. Ég hleyp mjög mikið og þetta hjálpar mér í því."
Hann telur ekki kalóríur en leikmenn Kölnar fá aðstoð við mataræðið og það er fylgst vel með hvort vöntun sé á einhverju í líkamanum. „Ef það vantar eitthvað þá er manni sagt að taka það, Köln er með allt upp á tíu í þeim efnum."
„Besta stemning sem ég hef upplifað"
Hvernig er að spila á Rheinenergiestadion?
„Þetta er besta stemning sem ég hef upplifað, nokkrir leikir eins og gegn Bayern og Freiburg þar sem stemningin var ótrúleg. Þetta er alvöru stemning, sérstaklega þegar við skorum og þegar við löbbum inn á völlinn, þá eru sérstök lög."
Gott að spila stöðu stöðu með félagsliði og landsliði
Köln er án sigurs í síðustu sex leikjum, liðið situr í 10. sæti, tveimur stigum á eftir Union. Ísak býst við jöfnum leik á morgun. Hann spilar sem annar af tveimur varnarsinnuðum miðjumönnum liðsins. Hann er ánægður með hlutverkið.
„Ég myndi segja að þetta væri mín besta staða, að vera einn af þeim sem getur líka farið upp völlinn þá líður mjög vel. Ég held það sé gott að ég sé að spila sama hlutverk í landsliðinu og hér, tvö mismunandi kerfi en þetta er samt 'double sexa'. Það hefur hjálpað mér í landsliðinu, ég er mjög ánægður með frammistöðu mína með landsliðinu og ég held það hafi hjálpað mér að spila á hærra getustigi í Bundesligunni og taka það yfir í landsliðið."
Stefnir á EM 2028
Talandi um landsliðið, hvernig líður þér með liðið og stöðuna á liðinu?
„Við erum með mjög gott lið finnst mér og stefnan, hjá mér allavega, hefur verið á EM 2028. Við vissum að það yrði erfitt að fara á HM 2026, en eftir tvö ár verðum við búnir að þroskast sem leikmenn og örugglega bæta okkur flestir. Ég verð þá 24 ára og fleiri á svipuðum aldri, við erum allir að þroskast og verðum vonandi á ennþá betri stað á ferlinum. Ég hef fulla trú á þessu liði."
„Það vantaði smá upp á, en mér finnst við betri en Úkraína, sérstaklega í fyrri leiknum, en þeir eru að fara í umspilið. Við höldum áfram að þróa okkur sem lið, það er bara EM 2028."
Stórmót með landsliðinu er stærsti draumurinn
Þú talaðir um að stefna alltaf hærra, hver er draumurinn?
„Það að fara á stórmót með Íslandi, það er stærsti draumurinn fyrir mér. Sem ungur strákur að sjá landsliðið 2016 og 2018... að fara á lokamót með Íslandi væri gjörsamlega sturlað."
„Svo er bara að halda áfram að gera vel í félagsliðaboltanum, sjá hvað gerist. Maður hefur voða litla stjórn hvar maður spilar og hvenær. Ég er á mjög góðum stað núna og langar að festa mig í sessi sem Bundesligu leikmaður, það er númer eitt, tvö og þrjú og ég vinn að því á hverjum einasta degi."
Mjög góð ákvörðun að fara til Þýskalands
Ísak fór frá FC Kaupmannahöfn sumarið 2023 til Fortuna Düsseldorf, fyrst á láni en var svo keyptur til Þýskalands. Hann sér alls ekki eftir ákvörðuninni að fara til Þýskalands.
„Ég held að það hafi bara verið mjög góð ákvörðun, ég held að Þýskaland henti mér vel, hlaupageta mín er mikils metin hérna og opnir leikir með mikið af mörkum, það er eitthvað sem ég er hrifinn af. Ég er allavega mjög sáttur með ákvörðunina og mjög þakklátur Düsseldorf þó að stuðningsmenn félagsins horfa kannski ekki þannig á það, en ég er allavega mjög þakklátur fyrir tímann minn í Düsseldorf. Þeir gáfu mér stórt hlutverk á miðjunni og það hefur hjálpað mér mjög mikið núna."
„Skiptin frá FCK voru mjög eðlileg, ég þurfti að fá að spila, þeir vildu fá mig á láni með kaupmöguleika og það voru mjög góð skipti í mínum augum."
„Eitt það skynsamlegasta sem ég hef gert"
Ísak fór í viðtöl við íslenska fjölmiðla fyrir landsleikina í júní 2023. Þar lýsti hann yfir óánægju yfir stöðu sinni í Kaupmannahöfn.
Voru menn í Kaupmannahöfn ósáttir við þig?
„Ég held að eitt það skynsamlegasta sem ég hef gert sé að hafa farið í það viðtal. Þeir voru ekki ósáttir við mig, þetta var líka einhvern veginn ranglega þýtt. Ég var bara ósáttur við spilatímann minn, ég var eiginlega ekkert að fá að spila og sem ungur leikmaður á maður ekki að vera sáttur við það. Ég fór bara í viðtal og sagðist vera ósáttur. Daginn eftir eða tveimur dögum síðar kom Düsseldorf upp sem möguleiki, þetta var fljótt að gerast og einhvern veginn átti að gerast að sá möguleiki kom upp og það var mjög gott skref."
Komandi inn í viðtalið, vissir þú hvað þú ætlaðir að segja, ætlaðir þú að koma þessu svona frá þér?
„Sagði ég þetta ekki í öllum viðtölunum sem ég fór í? Kannski var þetta eitthvað planað, en þetta var bara frá hjartanu. Ég þurfti einhvern veginn að taka stjórn á ferlinum, var ekki að fara sitja bara á bekknum og ekki að spila neitt í Köben og fjara út. Maður þarf að taka ábyrgð á ferlinum og hjólin fóru að snúast eftir þetta viðtal."
Ætlar að taka þjálfaragráðurnar
Þó að það sé langt í það, ertu að spá eitthvað í hvað verður eftir ferilinn, ertu að læra eitthvað?
„Ég er ennþá að klára framhaldsskólann, ég fór 15 ára út og hef verið að taka tvö fög á önn. Ég á held ég um 10-15% eftir af náminu, ég ætla klára það og svo langar mig að taka þjálfaragráðurnar. Ég spái mjög mikið í fótbolta og hef verið mjög heppinn með þjálfara, læri t.d. mjög mikið af Arnari núna, hann hefur komið mér skemmtilega á óvart. Hann er mjög fær þjálfari og getur náð mjög langt. Ég hef líka fengið innblástur af Alfreð Finnboga sem lærði 'sporting directorinn', mér finnst það mjög spennandi. Þetta verður eitthvað tengt fótbolta."
Ekki eins tapsár og áður
Ertu mjög tapsár?
„Ég var tapsárari, maður þarf einhvern veginn að horfa á stóru myndina með fótboltann. Maður getur reynt sitt besta og gefið allt í leikinn, en svo bara eru hlutir sem maður getur ekki stjórnað. Ég er tapsár, ég held að flestir taki undir það, en ekki eins og ég var."
Ég man eftir setningu frá þér eftir tapleik, þú sagðir: „Ég hata meira að tapa en ég elska að vinna'.'
„Ég man eftir þessu, en núna myndi ég örugglega breyta og segja að ég elska meira að vinna heldur en ég hata að tapa. Það er meira í lífinu en bara fótbolti, það er ógeðslega gaman að fagna með stuðningsmönnum og liðsfélögum sínum þegar maður er búinn að vinna leik. Ég breyti þessari tilvitnun, mér finnst skemmtilegra að vinna."
ÍA númer eitt, FH númer tvö
Jóhannes Karl er nýtekinn við FH. Ísak segir að 80% af þeirra samtölum snúist um fótbolta.
„Það er mjög mikið fótbolti, ég sendi alltaf á hann 'gangi þér vel' fyrir leiki og við tölum saman um leikina eftir þá."
„Mér líst mjög vel á það að hann sé tekinn við FH, aðstaðan þar er náttúrulega geggjuð. Hann er kominn með sinn leikstíl sem hann fann úti, hann þroskaðist mikið sem þjálfari hjá AB og kom þeim í fyrsta sætið. Hann er núna vonandi að fara gera það sama, þetta mun taka smá tíma, hann vill spila ákveðinn leikstíl, kannski verður fyrsta tímabilið aðlögunartímabil eða eitthvað svoleiðis, en hann fékk langan samning og getur byggt þetta svolítið upp. Ég hef fulla trú á honum. Hann er með betri þjálfurum, þó að hann sé pabbi minn, sem ég hef kynnst á ferlinum."
Er skrítið að byrja að halda með öðru liði á Íslandi en ÍA?
„Ég hef ekki pælt í þessu, það er kannski smá skrítið. Ég held alltaf með ÍA, en svo er FH lið númer tvö á Íslandi núna, það er nokkuð ljóst."
Þegar ÍA mætir FH, hvernig ætlaru að hafa þetta?
„Ég held með ÍA, en held líka með gamla karlinum. Ég get allavega ekki tapað í þeim leik, eða kannski tapa ég og vinn, sagði Ísak að lokum.
Athugasemdir




