banner
   fös 16. júlí 2021 15:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Matti strax byrjaður að senda á Davíð: Þarf eiginlega að fara blokka hann
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lennon skoraði öll þrjú mörk FH í einvíginu
Lennon skoraði öll þrjú mörk FH í einvíginu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matti Villa
Matti Villa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH vann í gær 2-1 sigur á Sligo Rovers í seinni leik liðanna í Sambandsdeildinni. FH vann einvígið 3-1 samanlagt og mætir norska liðinu Rosenborg í 2. umferð forkeppninnar. Einvígið hefst næsta fimmtudag.

Steven Lennon skoraði bæði mörk FH í gær, sitthvoru megin við hálfleikinn. Fótbolti.net heyrði í Davíð Þór Viðarssyni, aðstoðarþjálfara FH, og spurði hann út í leikinn í gær og einvígið gegn Rosenborg.

„Þetta var mjög sætt, erfiður fyrri hálfleikur og við vorum undir smá pressu. Þeir sköpuðu eitt, tvö fín færi og sem betur fer skoruðu þeir ekki úr þeim. Við stóðumst áhlaupið og að ná þessu marki fyrir leikhlé var frábært. Svo skorum við aftur í byrjun seinni hálfleiks, vorum komnir í frábæra stöðu og sigldum þessu bara heim,” sagði Davíð.

Engin spurning að FH er betra lið en Sligo Rovers
Er heilt yfir hægt að segja að FH sé betra lið en Sligo Rovers?

„Já, ég held að það sé engin spurning. Við vissum að þeir myndu koma og reyna keyra aðeins á okkur verandi 0-1 undir. Við vörðumst virkilega vel í þessum seinni leik og hefðum eins og í fyrri leiknum geta haldið boltanum aðeins betur. Við vorum aðeins klaufar þegar við vorum komnir í ákjósanlegar stöður að sækja hratt á þá."

„En eins og ég sagði eftir fyrri leikinn að það er þannig með lið sem er búið að vera í ströggli að þá er sjálfstraustið oft aðeins minna. Við erum komnir með tvo sigurleiki í röð núna og okkur finnst við sjá batamerki á liðinu og vonandi verður bara áframhald á því.”


Frábært tækifæri að spila gegn Rosenborg
Færir það liðinu aukna trú á komandi leiki að fara áfram í Evrópu?

„Já, ég held það. Þetta Sligo lið er mjög gott lið og er í 1.-2. sæti í írsku deildinni núna. Þetta gefur mönnum hellings trú og hellings sjálfstraust. Maður þekkir það sjálfur frá því maður var leikmaður að þetta eru langskemmtilegustu leikirnir sem maður spilar. Að fá þetta tækifæri á móti Rosenborg er frábært, lið sem er algjört stórveldi í Skandinavíu en hefur aðeins verið að hiksta upp á síðkastið. Við förum inn í það verkefni með þá trú að við getum vel strítt þeim og gert heiðarlega tilraun til að fara áfram.”

Matti strax byrjaður að senda á Davíð
Fyrirliði FH, Matthías Vilhjálmsson, er fyrrum leikmaðu Rosenborg. Þið getið væntanlega nýtt eitthvað af upplýsingum frá Matta þar?

„Já, hann er strax byrjaður að senda á mig. Ég þarf eiginlega að fara blokka hann bráðum, hann er búinn að senda svo mikið," sagði Davíð léttur.

„Nei, nei, það er frábært að geta leitað til Matta, hann er öllum hnútum kunnugur þarna og þekkir flesta leikmenn inn og út. Það er mjög gott að geta leitað til hans og fengið upplýsingar um hina og þessa leikmenn,” sagði Davíð.

Nánar var rætt við Davíð og birtist meira úr viðtalinu hér á síðunni í dag og á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner